Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Frábær framan af en úrvinnslu ábótavant

Mynd: RÚV/samsett mynd / RÚV/samsett mynd

Frábær framan af en úrvinnslu ábótavant

21.12.2017 - 15:44

Höfundar

Gagnrýnendur Kiljunnar segja Þúsund kossa, endurminningabók Jógu sem eiginmaður hennar Jón Gnarr skrifar, vera frábæra framan af en ekki sé unnið nógu vel úr afleiðingum slyss sem sé vendipunktur í lífi hennar.

„Maður þarf stöðug að minna sig á að þetta er bók eftir Jón Gnarr, því röddin og tónninn finnst manni vera allgjörlega hennar. Hún er skrifuð í fyrstu persónu og öll framsetning er þannig að manni finnst maður komast mjög nálægt henni sem karakter,“ segir Sunna Dís Másdóttir. Hún telur Jón gefa góða mynd af konu sinni í bókinni. Farið er í gegnum æskuár Jógu í Kópavogi og svo dvöl hennar sem au pair í Bandaríkjunum – en þar lendir hún í slysi sem hefur alvarlega afleiðingar á líf hennar. Sunnda Dís segist hafa búist við annarri atburðarás og eftirköstum þessa slyss sem hafði verið byggt upp sem mikill vendipunktur í lífi hennar. „Það náttúrulega hefur afleiðingar en úrvinnslan á því í textanum kom mér á óvart.“

Þorgeir Tryggvason samsinnir þessu. „Þessi hlutlægni og einfaldleiki, sem er framlag Jóns Gnarr til sögunnar, dugar ekki til að gera úrvinnsluna úr þessum síðasta hluta fullnægjandi.“ Bókin sé þó frábær framan af, sérstaklega æskuminningar frá frumbýlisárum Kópavogs: „Þar sem Kópavogur er fullur af börnum og hálfbyggðum húsum. Jóga gerist mikill vinur vistkvenna á Kópavogshæli,  það er algjörlega dásamlegur kafli,“ segir Þorgeir og Sunna Dís skýtur inn í að helst myndi hún vilja sjá þann kafla verða að bíómynd.

Þau segja erfitt að ræða bókina án þess að skemma fyrir lesendum en þau er bæði sammála um að úrvinnslu bókarinnar á meginatuburði hennar sé ábótavant. „Þarna gerast atburðir sem eru dálítið eins og í bíómynd eða sjónvarpsþætti, og það einhvern veginn hefði þurft að taka það meiri afgerandi tökum en að segja bara hvað gerðist,“ segir Þorgeir. Sunna Dís minnist þó á eftirmála að bókinni þar sem Jóka tali frá samtímanum. Þar fær maður meira samhengi og skilur betur hvernig hún fer í gengum ákveðnar aðstæður. Mér finnst eins og það hefði átt að skila sér betur inn í frásögnina.“

Tengdar fréttir

Menningarefni

Öndvegis sjálfshjálparbók

Bókmenntir

Sjaldgæft form sjálfsævisögu

Bókmenntir

Sagði í fyrsta sinn frá rúmlega 30 árum síðar