Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Frábær endasprettur tryggði Bergrúnu brons

Mynd með færslu
Bergrún Ósk komst þrisvar á verðlaunapall í Berlín. Mynd: Íþróttasamband fatlaðra - RÚV

Frábær endasprettur tryggði Bergrúnu brons

26.08.2018 - 10:40
Bergrún Ósk Aðalsteinsdóttir vann í gær sín þriðju verðlaun á Evrópumóti fatlaðra í frjálsum íþróttum í Berlín þegar hún hlaut bronsverðlaun í 200 metra hlaupi í T37, flokki hreyfihamlaðra.

Bergrún kom reyndar fjórða í mark á tímanum 31,61 sekúndu og bætti um leið Íslandsmetið í sínum flokki. Hin úkraínska Nataliia Kobzar sem kom önnur í mark var dæmd úr leik og því færðist Bergrún upp um eitt sæti og þar með í verðlaunasæti. 

Ekki er ljóst hvað Kobzar gerði til að vera dæmd úr leik en bronsið er samt sem áður Bergrúnar. Segja má að frábær endasprettur Bergrúnar hafi tryggt henni verðlaunin, því hún var sjötta og síðust keppenda þegar um 50 metrar voru eftir af hlaupinu.

Þessi góði endasprettur skilaði því að lokum bronsinu, sem eru þriðju verðlaunin sem Bergrún vinnur á EM í Berlín en mótið er hennar fyrsta stórmót. Áður hafði hún unnið til bronsverðlauna í 100 metra hlaupi og silfurverðlaun í langstökki.

Tengdar fréttir

Frjálsar

Bergrún Ósk með silfur - Jón Margeir í 7. sæti

Íþróttir

Bergrún vann brons á EM