Frá London í kyrrðina á Patreksfirði

Frá London í kyrrðina á Patreksfirði

15.03.2017 - 09:32

Höfundar

„Þegar við fluttum á Patreksfjörð fannst okkur við geta andað aftur“. segir ungt par sem gafst upp á London og keypti gamalt hús á Patró. Hún er franskur innanhússhönnuður, hann íslenskur sérkennari, en hvorugt þeirra hafði nein fyrri tengsl við þorpið. Nú eru þau í óðaönn að gera hið 119 ára hús Merkistein upp, en hluti þess á að verða vinnustofa og samkomustaður fyrir bæjarbúa.

Julie Gasiglia átti erfitt með að finna starf á Íslandi sem innanhússhönnuður og ákvað því að leita fyrir sér í London. Þar starfaði hún hjá stóru innanhúshönnunarfyrirtæki sem heitir Morey Smith. Eftir stuttan tíma var hún hins vegar farin að sakna Íslands.

Ég áttaði mig á því að það eina sem London hafði upp á að bjóða var starf með góðum tekjum. En það var bara ekki það sem ég var að leita að.

Þegar hún kom á Patreksfjörð ásamt Aroni Inga Guðmundssyni varð þeim báðum ljóst að þar vildu þau vera. Andinn í bænum væri einstakur, fólkið hjálplegt og náttúrufegurðin ólýsanleg. Aron starfar nú sem sérkennslustjóri í leikskólanum í bænum og hún vinnur að hönnun sinni heiman frá.

Þau keyptu húsið Merkistein sem var byggt í kringum 1898 og hófu strax að gera það upp. Það er greinilegt að húsið hefur langa sögu og í því má sjá greinileg merki fyrri íbúa í marglaga gólfum og yfirmáluðum veggjum. Þau hyggjast breyta hluta hússins í eins konar vinnustofu eða samkomustað. með því vilja þau gefa fólki tækifæri til að hittast og skapa.

Þetta er svona okkar leið til að gefa bænum eitthvað til baka eftir þessar frábæru móttökur.

Þess má geta að hönnunarverkefni Julie má skoða á vefsíðunni Býflugan.