Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Frá asnalegum brandara í risastóra veislu

Aldrei fór ég suður - mynd úr safni. - Mynd: Ágúst Atlason / Aldrei fór ég suður

Frá asnalegum brandara í risastóra veislu

16.03.2017 - 10:30

Höfundar

„Með fullri virðingu fyrir öllum öðrum hátíðum þá held ég að þú finnir ekki meiri fjölbreytni,“ segir Kristján Freyr Halldórsson, rokkstjóri tónlistarhátíðarinnar Aldrei fór ég suður sem haldin verður í fjórtánda sinn á Ísafirði um páskahelgina.

Rokkhátíð alþýðunnar, Aldrei fór ég suður, hefur breyst mikið og þroskast, enda komin á fermingaraldur segir Kristján Freyr.„Hún hefur breyst frá því að vera asnalegur brandari nokkurra vina um að halda tónleika um páska, þegar erfitt væri að komast hingað og leiðinlegt veður, í hrárri skemmu, yfir í að vera risastór veisla og samfélagsverkefni, þar sem allir bæjarbúar á Ísafirði og nágrannabyggðarlaga halda bara gott partí, góða tónleika. Það er ýmislegt búið að breytast á þessum árum og fermingarbarnið vex og dafnar mjög vel.“

Mynd með færslu
 Mynd: Aldrei.is
Kristján Freyr Halldórsson, rokkstjóri Aldrei fór ég suður

Hátíðin hefur stækkað töluvert undanfarin ár, farið frá því að vera tónleikar á laugardags eftirmiðdegi, yfir í stóra helgarskemmtun. Fjöldi gesta hefur einnig aukist með hverju ári, en Kristján Freyr segir að aðstandendur hátíðarinnar fari ekki fram úr sér. „Ég held að blessunarlega getum við ekki stækkað of mikið, og ekki mikið meira. Það sem hefur haldið í okkur er húsnæðisskortur, við höfum engar stórar hallir og ætlum okkur aldrei að fara í svo stórt hús að við hýsum mörg þúsundir manna. Við höfum alltaf vitað af því að við megum ekki stækka um of. Við höfum haldið vel á spöðunum verð ég að segja, að fara ekki fram úr okkur í einu og öllu.“

Dagskrá hátíðarinnar var kynnt í síðustu viku og ljóst að flestir ættu að geta fundið tónlist við sitt hæfi. Meðal þeirra sem fram koma eru Emmsjé Gauti, Hildur, HAM, KK, Valdimar, Vök og Lúðrasveit tónlistarskólans á Ísafirði. „Ef ég á að nefna eitthvað eitt við Aldrei fór ég suður, þá er það þessi fjölbreytni sem við leyfum okkur að leika okkur með. Eins og í fyrra vorum við með Strigaskó nr. 42, þungarokksband frá Kópavogi, svo kom Laddi og Glowie. Með fullri virðingu fyrir öllum öðrum hátíðum þá held ég að þú finnir ekki meiri fjölbreytni,“ segir Kristján Freyr.

Rætt var við Kristján Frey Halldórsson í Morgunútvarpinu á Rás 2.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Aldrei fór ég suðurgata á Ísafirði

Menningarefni

Allir fá eitthvað á Aldrei fór ég suður