Fótboltavöllur Seyðfirðinga er ónýtur

Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV

Fótboltavöllur Seyðfirðinga er ónýtur

31.05.2018 - 14:00
Fótboltavöllurinn á Seyðisfirði er svo gott sem ónýtur og það kostar um það bil 50 milljónir að laga hann. Vegna þessa getur meistaraflokkur Hugins ekki æft og leikið heimaleiki á eigin velli heldur þarf að aka yfir í næsta sveitarfélag.

Garðarsvöllur, heimavöllur Hugins á Seyðisfirði, er heldur seinn að taka við sér þetta vorið og ólíklegt að hann hjarni nokkuð við. Undir sverðinum er gamli malarvöllurinn og þar undir braggagrunnar. Vondur jarðvegur fyrir fótboltavöll. „Ástandið er einfaldlega þannig að völlurinn er svo gott sem ónýtur. Hann drenar sig ekki og hann heldur ekki grasi. Þannig að í raun er grasið dautt og þetta er að breytast í moldarflag og væri þá líklegra að við myndum hafa fyrstu umferð í Mýrarbolta fyrir Ísfirðingana heldur en að spila fótboltaleik í deild,“ segir Sveinn Ágúst Þórsson, formaður Hugins á Seyðisfirði.

Huginn hefur þurft að grípa til þess ráðs að flytja sig yfir Fjarðarheiði og til að missa ekki auglýsendur fylgdu vallarspjöldin með. „Við æfum og keppum á Fellavelli sem er um 70 kílómetra í burtu samanlagt fram og til baka frá þessum velli og stöndum alfarið að kostnaði við það en bærinn ætlar eitthvað að koma til móts við okkur á þessu ári,“ segir Sveinn.

Kostnaðaráætlun geri ráð fyrir að 50 milljónir kosti að endurnýja völlinn á Seyðisfirði. „Bærinn eða fráfarandi bæjarstjórn öllu heldur sögðust ekki vera tilbúin að leggja meira en 15 milljónir í framkvæmdina og við yrðum þá að koma með rest ef þetta ætti að verða að möguleika. Við höfum fengið núna í dag 7 milljóna króna styrk frá KSÍ sem er nú ekki mikið. Þannig að þá standa út af 28 milljónir og það er stór pakki fyrir lítið félag sem að berst í bökkum við að halda úti meistaraflokki og frekar fámennum yngri flokkum,“ segir Sveinn.

Uppbygging fótboltavallarins er eitt af því sem brann á kjósendum á Seyðisfirði fyrir sveitarstjórnarkosningarnar. Hér sjá myndband þar sem rætt er við kjósendur meðal annars um völlinn.