Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Fössari orð ársins 2015

Mynd með færslu
 Mynd: Ásgeir Jónsson - RÚV

Fössari orð ársins 2015

06.01.2016 - 17:57

Höfundar

Fössari er orð ársins að mati lesenda RÚV.is. Greint var frá þessu þegar Menningarviðurkenningar RÚV voru afhentar í Útvarpshúsinu í dag. Í fyrsta skipti var kosið um orð ársins en einnig var hægt að velja orðin deilihagkerfi, lundabúð, grænkeri og rafretta.

Fössari er nýrði, einkum notað af æskufólki, og er í grunninn stytting eða afbökun orðsins föstudagur. Í daglegu brúki merkir það þó fremur föstudagskvöld, eða byrjun helgarfrís. Eða samkoma eða hittingur á föstudagskvöldi þar sem fólk hittist og fær sér gjarnan öllara.

Auður Jónsdóttir hlaut viðurkenningu Rithöfundarsjóðs Ríkisútvarpsins. Auður hefur á undanförnum árum skrifað allmargar skáldsögur en fyrir jól kom út nýjasta bók hennar, Stóri skjálfti. Fyrst var veitt viðurkenning úr Rithöfundarsjóðnum árið 1957.

Heiðar Sumarliðason, Kristín Eiríksdóttir, Salka Guðmundsdóttir, Hafsteinn Gunnar Sigurðsson og Halldór Halldórsson hlutu styrki úr Leiklistarsjóði Ríkisútvarpsins.

46 styrkir voru veittir í fyrra úr Tónskáldasjóðnum. Krókinn, viðurkenningu Rásar 2 fyrir framúrskarandi lifandi flutning, fékk hljómsveitin Agent Fresco.