Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Fórum að lögum og reglum

02.03.2018 - 10:53
Mynd: Freyr Arnarson / RÚV
„Sádi-Arabía sem þessi tilteknu leyfi eða undanþágur hafa fjallað um er ekki skilgreint sem átakasvæði og þar af leiðandi hefur íslenska ríkið farið að fullu eftir lögum og reglugerðum.“ Þetta segir Þórólfur Árnason, forstjóri Samgöngustofu. Fréttamenn ræddu við að hann að loknum sameiginlegu fundi utanríkismálanefndar Alþingis og umhverfis- og samgöngunefndar nú rétt í þessu.

Þórólfur Árnason, forstjóri Samgöngustofu segir að sameiginlegur fundur utanríkismálanefndar Alþingis og umhverfis- og samgöngunefndar hafi verið mjög upplýsandi og málið hafi verið rætt á mjög víðum grunni. 

„Fyrst og fremst þarf að fjalla um það eftir hvaða lögum og reglum er verið að flytja vopn,“ segir Þórólfur. 

Þórólfur bendir á að hér hafi verið Bandaríkjaher verið með viðveru 2005 en það ár hafi reglugerð verið sett. 

Sádi-Arabía sem þessi tilteknu leyfi eða undanþágur hafa fjallað um er ekki skilgreint sem átakasvæði og þar af leiðandi hefur íslenska ríkið farið að fullu eftir lögum og reglugerðum,“ segir Þórólfur. „Það sem hins vegar við gerðum í október, þar kom beiðni um millilendingu hér á Íslandi á táragasi sem átti að fara til Venesúela. Það töldum við að væri mjög ámælisvert, því við höfðum heyrt eins og hver annar af átakasvæðum í Venesúela,“ segir Þórólfur. 

Hann segir að Samgöngustofa hafi rætt við samgönguráðuneytið um að reglugerðin hafi verið endurskoðuð. Sú vinna standi yfir.

Beiðnir um vopnaflutninga send samgönguráðuneyti

„Síðan hafa verið 4 beiðnir. Við höfum sent þær allar í samgönguráðuneytið. Tveimur hefur verið hafnar og tvær hafa verið leyfðar,“ segir Þórólfur. Hann segir að Samgöngustof hafi verið beðin um gögn um einstök flug og einstaka heimildir á undanförnum árum. Samgöngustofu hafi ekki verið heimilt að veita fjölmiðlum upplýsingar um þessi flug. Sérstakt trúnaðarákvæði gildi um loftferðir.

„Núna hefur ráðuneytið beðið okkur um þessar upplýsingar og þá að sjálfsögðu munum við koma þeim öllum til ráðuneytisins,“ segir Þórólfur.  Þá hafi utanríkismálanefnd og umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis óskað eftir gögnunum.

Mest 17 vopnaflutningar á einu ári

„Þessar beiðnir eða þessir flutningar, þetta hefur verið engin eða ein til að byrja með, að meðaltali sýnist okkur 5-10, ég held að það hafi verið mest 17 á einu ári. Air Atlanta sem gerir út 17 þotur flýgur tugi fluga á hverjum degi, þannig að sjálfu sér er þetta brot af þeirri starfsemi sem Air Atlanta hefur,“ segir Þórólfur. „Ég tel að það sé þeirra samfélagslega ábyrgð að upplýsa okkur og koma með þær upplýsingar sem þið fréttamenn hafið beðið um, í fullum rétti finnst mér,“ segir Þórólfur. 

Fréttin er í vinnslu.