Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Fóru af stað þrátt fyrir stormviðvörun

05.01.2017 - 19:07
Mynd með færslu
Safnmynd.  Mynd: Flugbjörgunarsveitin Hellu
Tveggja ferðamanna er leitað við Langjökul eftir að þeir urðu viðskila við vélsleðahóp í skipulagðri ferð í dag. Fólkið var í skipulagðri vélsleðaferð frá fyrirtækinu Mountaineers en varð viðskila við hópinn og skilaði sér ekki til baka. Ferðaþjónustufyrirtækið fór af stað þrátt fyrir stormviðvörun.

Veðurstofan varaði við stormi í dag og samkvæmt heimildum fréttastofu hafði annað ferðaþjónustufyrirtæki aflýst vélsleðaferðum í dag vegna veðurs. Samkvæmt upplýsingum frá Mountaineers þótti veðurspáin ekki nógu slæm til að fresta ferðinni. Vindátt hafi þótt hagstæð. Sex til sjö leiðsögumenn hafi verið í hópnum og 30 ferðamenn. 

Yfir 120 björgunarsveitarmenn frá Suðurlandi og höfuðborgarsvæðinu er nú við leit á vélsleðum og snjóbílum Upplýsingafulltrúi Landsbjargar segir að ferðamannahópurinn hafi ákveðið að snúa við vegna veðurs þegar komið var að jökulsporðinum. Reynt hafi verið að ná símasambandi við ferðamennina, sem eru par á sextugsaldri, en án árangurs.
 

milla.osk's picture
Milla Ósk Magnúsdóttir
Fréttastofa RÚV