Fortitude kaus Svalbarða fram yfir Ísland

Mynd með færslu
 Mynd: Fortitude - Sky

Fortitude kaus Svalbarða fram yfir Ísland

07.05.2018 - 11:54

Höfundar

Síðasta þáttaröðin af bresku spennuþáttunum Fortitude var gerð á Svalbarða en ekki Reyðarfirði eins og tvær fyrstu þáttaraðirnar. Þetta staðfestir Snorri Þórisson hjá framleiðslufyrirtækinu Pegasus. Síðasta þáttaröðin er aðeins minni í sniðum því hún er aðeins fjórir þættir en þeir verða frumsýndir síðar á þessu ári á Sky.

Fyrstu tvær þáttaraðirnar voru gerðar á Reyðarfirði og var bærinn undirlagður af tökuliðinu þegar það kom í heimsókn. „Þetta eru sannarlega uppgrip, mikið af starfsemi blómstrar í kringum þessar kvikmyndatökur og liðið þarf á mikilli þjónustu að halda,“ sagði Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri í Fjarðabyggð, þegar tökur á annarri þáttaröðinni voru hafnar.

Verkefnið var mjög umfangsmikið en samanlagður framleiðslukostnaður þáttaraðanna tveggja hér á landi nam tæpum 2,4 milljörðum. Ísland og Reyðarfjörður fengu töluvert mikla athygli út á þættina í Bretlandi og sjónvarpsáhorfendur dásömuðu náttúruna fyrir austan á samfélagsmiðlum.

Sofie Gråbøl, sem leikur aðalhlutverkið í þáttunum, greindi svo frá því í viðtali við Sunnudagsblað Morgunblaðsins að tökurnar á Íslandi hefðu verið upphafið að nýjum kafla í lífi hennar eftir erfiða baráttu við brjóstakrabbamein. „Ég upp­lifði létti að vera hér í nýju um­hverfi og ég þurfti á þess­um tíma­punkti í lífi mínu, eft­ir veik­ind­in, að kom­ast burt og þetta var því eins og himna­send­ing.“ 

Mynd með færslu
 Mynd: Sky/Fortitude
Sofie Gråbøl naut þess að koma til Íslands eftir erfiða baráttu við krabbamein

En af hverju kom Fortitude ekki til Íslands með lokaþáttaröðina? „Leikstjóri síðustu þáttanna vildi mjög mikið fara til Svalbarða og gera þættina þar og fékk það að lokum í gegn,“ segir Snorri Þórisson hjá framleiðslufyrirtækinu Pegasus sem var tökuliðinu innan handar hér á landi. Hann bendir jafnframt á að þáttaröðin hafi alltaf verið skrifuð fyrir Svalbarða enda var norskum fána alltaf flaggað á Reyðarfirði þegar tökurnar fóru þar fram.

Aðrar ástæður nefnir Snorri til að mynda snjóleysi sem tökuliðið glímdi við og það hafi reynst kostnaðarsamt að flytja snjó til landsins. Tökuliðið hafi síðan lent í svipuðum aðstæðum á Svalbarða því mjög snjólétt hafi verið á meðan tökum stóð. „Svo stóðu þeir í þeirri trú að þeir fengju endurgreitt úr norska kvikmyndasjóðnum en svo varð ekkert úr því.“ 

Snorri segist hafa boðið tökuliðinu gull og græna skóga gegn því að koma með síðustu þættina til Íslands. „En þeir voru einfaldlega komnir of langt með framleiðsluna.“

Björn Hlynur Haraldsson í hlutverki sínu í Fortitude
 Mynd: RÚV
Björn Hlynur í hlutverki sínu sem Eric Odegard í Fortitude.

En þótt tökuliðið hafi ekki komið til Íslands var Björn Hlynur Haraldsson á sínum stað sem Eric Odegard. „Þetta var kalt, það var þrjátíu stiga frost suma dagana,“ segir Björn í samtali við fréttastofu. „Við vorum þarna í hálfan mánuð þar sem það þótti orðið of dýrt að fara til Íslands. Sem er mikil synd.“

Það hafi þó verið einstakt að koma til Svalbarða sem Björn segir ótrúlegan stað.  Til að mynda séu þar fleiri ísbirnir en manneskjur. „Nálægðin við þá gerir þetta allt svolítið „vírað“.  Allir þurfa að bera skotvopn og enginn má fara neitt út fyrir bæinn.“ 

Björn hefur verið viðloðandi verkefnið í fimm ár og segir það skrýtið að núna sé allt búið eftir að hafa unnið náið með þessu fólki í svona langan tíma. „Á Svalbarða bjuggu allir undir sama þaki og það var svolítið sérstakt að kveðja þetta fólk. En það er líka alltaf gaman að klára eitthvað og snúa sér að öðru.“