Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Forstjóri Orkuveitunnar: „Brugðumst strax við“

13.09.2018 - 17:03
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur og stjórnarformaður Orku náttúrunnar, segist ekki getað farið út í það nákvæmlega hvers konar hegðun framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar sýndi samstarfsfólki sínu að öðru leyti en því að það hafi verið mat stjórnar fyrirtækisins að hegðun hans hafi verið óviðeigandi. Framkvæmdastjóranum var vikið frá störfum í gær.

Einar Bárðarson, umboðsmaður og ráðgjafi, greindi frá því á Facebook í gær að forstjóri fyrirtækis liti framhjá óviðeigandi hegðun framkvæmdastjóra síns. Sá fengi að halda starfi sínu áfram og forstjórinn réttlæti það með því að viðkomandi væri að skila svo góðum niðurstöðum. 

Einar var þar að vísa til Bjarna Bjarnason, forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur, og Bjarna Más Júlíussonar, framkvæmdastjóra Orku náttúrunnar.  Bjarna Má var vikið frá störfum í dag en forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur segir að upplifun sín af fundinum með Einari hafi verið allt öðruvísi en eins og sú sem birtist í færslu Einars.

Bjarni segir í samtali við fréttastofu að hann hafi fengið tölvupóst frá Einari á þriðjudeginum. Hann hafi í framhaldinu óskað eftir fundi með honum og skjólstæðingi hans daginn eftir og þar hafi hann komið því á framfæri að það væri ekkert þol fyrir hegðun sem væri ekki samkvæmt ströngustu kröfum fyrirtækisins. 

Einar hafi á fundinum spurt Bjarna hvað yrði gert í máli framkvæmdastjórans „Ég sagðist ekki geta svarað því, það væri stjórnin sem tæki ákvörðun um það,“ segir Bjarni sem kveðst hafa upplýst Einar um að málið yrði tekið fyrir á stjórnarfundi. 

Í framhaldinu hafi stjórn Orku náttúrunnar verið kölluð saman til fundar klukkan 14:30 og þegar þeim fundi lauk klukkustund síðar hafi honum verið falið að ganga frá starfslokum Bjarna Más.  Bjarni segir að stjórnin hafi verið einhuga í ákvörðun sinni um að segja Bjarna Má upp störfum. 

Forstjórinn segir að engar frekari kvartanir hafi borist eftir að Bjarna Má var sagt upp störfum  og honum sé ekki  kunnugt um að einhverjar formlegar kvartanir hafi borist undan framkvæmdastjóranum.  Hann hafi þó vitað af einhverjum samskiptavanda innan fyrirtækisins en stjórnin hafi vonast til að það myndi leysast. „En það er bara þetta eina tilvik sem veldur því að stjórnin er kölluð saman.“

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV