Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Forstjóri Hafró boðar uppsagnir í haust

02.05.2019 - 15:05
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Sigurður Guðjónsson, forstjóri Hafrannsóknarstofnunar, segir einboðið miðað við fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2020 til 2024 að stofnunin þurfi að draga verulega úr rekstri. Þar á meðal séu rannsóknir og úthald rannsóknaskipa á næsta ári og næstu árum. „Slíkur samdráttur getur ekki átt sér stað nema með uppsögnum starfsmanna bæði á sjó og í landi.“

Þetta kemur fram í umsögn forstjórans við fjármálaáætlunina sem send var atvinnuveganefnd í dag.  Þar segir forstjórinn að til að slíkar aðgerðir hafi áhrif þurfi að óbreyttu að ráðast í þær í haust þegar fjármálafrumvarp fjármálaráðherra liggi fyrir. 

Í umsögn forstjórans er vitnað til skýrslu starfshóps sem falið var að greina rekstur Hafró. Í henni kemur fram að  Hafró hafi á síðustu árum aflað sér viðbótartekna með leigu á rannsóknarskipinu Árna Friðrikssyni og með eldi á hrognkelsum og sölu þeirra til laxeldisfyrirtækja til aflúsunar laxa. 

Stofnunin geti þó ekki treyst á þessar tekjur til framtíðar þar sem leigan á rannsóknarskipinu sé tilfallandi og innlend fyrirtæki séu komin með umfangsmikinn rekstur í hrognkelsaframleiðslu. „Vandamál stofnunarinnar er hins vegar að hún, miðað við óbreytta fjármögnun, er orðin háð þessum tekjum,“ segir í skýrslu starfshópsins.

Þá segir forstjórinn að starfshópurinn hafi komist að þeirri niðurstöðu að ekki sé fýsilegt að draga úr kjarnastarfsemi Hafró þar sem hún sé ein af grunnstoðum fiskveiðistjórnunarkerfisins. Það sé því viðurkennt að fjárveitingar til Hafró séu ekki nægar til að sinna grunnrannsóknum en þess sjáist ekki stað í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar.  Því sé einboðið að draga þurfi verulega úr rekstri og segja fólki upp, bæði á sjói og í landi.