Forstjóri FBI rannsakaður vegna tölvupóstmáls

James Comey, yfirmaður FBI.
James Comey, yfirmaður FBI. Mynd: FBI
Rannsókn er hafin á framgöngu bandarísku alríkislögreglunnar, FBI, í aðdraganda bandarísku forsetakosninganna. FBI hefur verið sakað um að vinna gegn Hillary Clinton, frambjóðanda Demókrataflokksins, sem beið lægri hlut í kosningunum.

Michael Horowitz, sem er yfir bandaríska dómsmálaráðuneytinu, lýsti því yfir í kvöld að hann hyggist rannsaka ákveðna þætti í framgöngu FBI og dómsmálaráðuneytisins. Talið er að rannsóknin beinist einkum að framgöngu alríkislögreglunnar og yfirmanns hennar, James Comey. Hann greindi frá því aðeins 11 dögum fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum, að FBI ætlaði að taka rannsókn á tölvupóstmálinu svokallaða, en Clinton hafði verið sökuð um að misfara með trúnaðargögn.

Talið er að yfirlýsing Comey hafi aukið vantraust á Clinton, rétt fyrir kosningarnar, og jafnvel haft úrslitaáhrif á niðurstöðu kosninganna. Viku seinna lýsti Comey því svo yfir að horfið hafi verið frá því að rannsaka Clinton frekar.

Dómsmálaráðuneytinu hefur borist fjöldi áskorana um að rannsaka framgöngu FBI og ráðuneytisins, bæði frá almenningi og þingmönnum.

Kári Gylfason
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi