Forstjóri 365: „Erum með réttinn okkar megin“

26.11.2016 - 19:10
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Forstjóri 365 segir að fyrirtækið sé í fullum rétti að láta fylgjast með IP-tölum þeirra sem hlaða íslensku sjónvarpsefni inn á ólöglegar dreifiveitur. Slíkt sé meinsemd í íslensku samfélagi. 365 hefur lagt fram eina kæru vegna dreifingar á efni.

Sjónvarpsþáttaröðin Borgarstjórinn hefur notið töluverðra vinsælda, en hún er sýnd á Stöð 2 um þessar mundir. Þátturinn er einnig mjög vinsæll á skráarskiptasíðum á netinu, þar sem honum er deilt ólöglega. Alls hefur þátturinn verið sóttur næstum 22 þúsund sinnum á slíkum síðum. Þá hefur þátturinn Leitin að upprunanum verið sóttur rúmlega 14 þúsund sinnum. 365 er nú komið í samstarf við Félag rétthafa í sjónvarps- og kvikmyndaiðnaði, FRÍSK, til þess að reyna að stöðva þessa dreifingu.

„Það sem við gerum er að við fáum frá FRÍSK upplýsingar um hverjir hafa sett efnið okkar með ólögmætum hætti á netið. Og það sem við höfum einfaldlega gert er að skoða hverjir mögulega geti verið þarna á bakvið. Og við höfum sett kæru til lögreglunnar,“ segir Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri 365.

Meinsemd

Aðeins ein kæra hefur verið lögð fram en Sævar segir hugsanlegt að fleiri fylgi. Hann segir málið snúast um annað og meira en bara tjón 365. Þarna sé verið að ráðast á heila atvinnugrein.

„Og það er einfaldlega meinsemd í íslensku samfélagi að það sé verið að stela efni og þetta snýst um rétt okkar til þess að breyta því.“

Haldið þið að svona aðgerðir skili árangri?

„Það veltur á því að lögreglan vinni sitt starf.“

Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, segir að Persónuvernd ætli að skoða hvort eftirlit 365 með IP-tölum þeirra sem deila efninu standist lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

Eruð þið viss um að þetta standist lög um persónuvernd?

„Þetta hefur verið gert áður. Og það er FRÍSK sem er einfaldlega að senda okkur upplýsingar um hvenær efnið er sett inn á netið. Við erum ekki að fylgjast með persónum eða einstaklingum,“ segir Sævar. „Við erum algjörlega með réttinn okkar megin og lögfræðingar okkar eru sannfærðir um það. Og hvað varðar Persónuvernd þá er hún sannarlega velkomin til okkar. Við höfum ekkert að fela og við treystum því að lögreglan bregðist jafnhratt við og Persónuvernd vill gera í þessu máli.“