Að mati Davíðs hefur forsetinn eytt of miklum tíma erlendis á hverju kjörtímabili. Hann vill færa forsetann heim: „Ég vil fá forsetann heim og láta hann huga að innri málefnum, innviðunum, eiga samtöl við sína þjóð og beita sínu valdi. Og þegar ég tala um að beita valdi í þessu tilfelli, þá á ég fyrst og síðast við áhrifavaldið. Áhrifavald hefur forsetinn töluvert. Það er þó ekki skrifað á bók en við þekkjum það. Og forsetinn getur beitt því ef hann hefur burði, styrk, afl og reynslu, til að gera það.“
Davíð Oddsson vill fara hægt í breytingar á stjórnarskránni: „Mín lífsskoðun er sú að menn eigi ekki að breyta einhverju bara breytinganna vegna, heldur vegna þess að breytingarnar séu til bóta.“ Þá segir Davíð einnig að orðalag stjórnarskránnar sé skýrt og því þurfi ekki að breyta. Orðalag hennar kunni að vera óljóst þeim sem ekki hafa unnið með hana. Fæstir lesi stjórnarskrána frá degi til dags. Um leið benti Davíð á að hann væri sá eini frambjóðendanna sem oft hafi komið að breytingum á stjórnarskránni.