Forsetinn staðfestir andlát þeirra sem er saknað

21.01.2020 - 04:48
epa08008223 A handout photo made available by the President Media unit shows Sri Lanka's new President Gotabaya Rajapaksa assumes duties as the 7th Executive President of Sri Lanka, at the Presidential Secretariat in Colombo, Sri Lanka, 19 November 2019.  EPA-EFE/PRESIDENT MEDIA UNIT HANDOUT  HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
Gotabaya Rajapaksa hefur falið bróður sínum að mynda nýja stjórn á Sri Lanka. Mynd: EPA-EFE - Forsetaembættið á Sri Lanka
Forseti Sri Lanka viðurkenndi í fyrsta sinn í gær að þær þúsundir sem hefur verið saknað síðan í borgarastríðu í landinu séu látnar. Um 100 þúsund létu lífið og um 20 þúsund hurfu í borgarastríðinu sem varði í 26 ár fram til ársins 2009, þegar uppreisn Tamiltígra var loks brotin á bak aftur.

Forsetinn Gotabaya Rajapaksa greindi frá því á fundi með erindreka Sameinuðu þjóðanna í höfuðborginni Colombo í gær að hin horfnu séu öll látin. Næstu skref verða að útbúa dánarvottorð fyrir alla þá sem er saknað, segir í tilkynningu frá forsetaembættinu.

Ættingjar fá loksins svar

Hundruð fjölskyldna hafa gengið saman til að krefjast þess að fá að vita hvað varð um ástvini þeirra. Margir héldu í vonina um að ættingjar þeirra væru enn á lífið og í haldi öryggissveita. Þær fjölskyldur hittast á hverjum degi til að minnast ættingja sinna og mótmæla samskiptaleysi stjórnvalda. 

Rajapaksa var varnarmálaráðherra á meðan borgarastríðið varði. Stríðið dró línu á milli þjóðfélagshópa í landinu, annars vegar meirihluta Singhalese búddista sem voru við stjórn, og hins vegar uppreisnarhóp Tamila sem vildu sjálfstæði. Rajapaksa er álitin hetja meðal Singhalesa fyrir hlutverk sitt við að brjóta uppreisn Tamila á bak aftur. Hann er hins vegar litinn hornauga af samfélagi Tamila. 

SÞ vill rannsókn á stríðsglæpum

Sameinuðu þjóðirnar sökuðu báðar fylkingar um grimmdarverk undir lok stríðsins. Heimildir voru fyrir því að hermenn Tamila væru drepnir þrátt fyrir að þeir hafi reynt að gefast upp, eða eftir að þeir voru teknir fanga. Eins hélt fólk áfram að hverfa á árunum eftir stríð. Kaupsýslumenn, blaðamenn og aðgerðasinnar sem voru ekki í náðinni hjá stjórn Rajapaksa og bróður hans, Mahinda, sem þá var forseti, voru sóttir og látnir hverfa. Stjórn Rajapaksa hefur ítrekað neitað því að hafa átt nokkurn þátt í mannshvörfum. Gotabay Rajapaksa sagði í viðtali við BBC á þessu ári að ásakanir gegn honum um stríðsglæpi væru ekki á rökum reistar.

Sameinuðu þjóðirnar, auk fleiri samtaka, hafa þrýst á stjórnvöld í Sri Lanka um að setja á stofn stríðsglæpadómstól. Þar yrði hægt að rannsaka ásakanir um mannréttindabrot, bæði af hendi stjórnarhersins og Tamila. Stjórnvöld í Sri Lanka vilja ekki heyra á það minnst, segja málið vera innanríkismál sem eigi að rannsaka sem slíkt.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi