Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Forsetinn sé hugsjónamanneskja

Mynd: Rebekka Blöndal / Morgunvaktin
„Ég vil endilega sjá hugsjónarmanneskju í þessu starfi,“ sagði Guðrún Margrét Pálsdóttir, forsetaframbjóðandi á Morgunvaktinni á Rás 1. „Ég trúi því að ég eigi erindi í embættið og að þau gildi sem ég vil standa fyrir séu mikilvæg í þjóðfélagi okkar. Ég hef brennandi áhuga á velferð þessarar þjóðar og reyndar heimsins.“

Guðrún Margrét Pálsdóttir segir mannúðarmál vera sér mjög hugleikin, bæði hér á landi og þar sem neyðin er meiri. Guðrún Margrét vill stofna góðgerðarsjóð og halda árlega góðgerðarviku. „Ég vil hvetja til að við gerum meira. En forseti hefur ekki vald til að breyta fjárlögum. Við getum hinsvegar tekið okkur til sjálf sem einstaklingar. Ég sé fyrir mér öflugan góðgerðarsjóð sem sinnir velferðarmálum bæði hér heima og erlendis.“

Guðrún telur að Íslendingar geti lagt sitt af mörkum í mannúðarmálum og að forsetinn geti verið leiðandi í þeim efnum: „Ganga á undan með góðu fordæmi og hvetja þjóðina til góðra verka. Ég trúi því að það sé hægt að virkja fólk miklu meira. Ég veit að margir eru að gera mjög gott. En við getum gert betur.“

Miðvikudaginn 1. júní, kemur Hildur Þórðardóttir á Morgunvaktina.