Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Forsetinn á ekki að vera í fílabeinsturni

Mynd: Rebekka Blöndal / Morgunvaktin
„Ég sé það þannig að forseti eigi ekki að vera í einhverjum fílabeinsturni á Bessastöðum,“ sagði Hildur Þórðardóttir, forsetaframbjóðandi, á Morgunvaktinni á Rás 1. Hún segir að forsetinn eigi að vera úti á meðal fólksins, hann eigi að heimsækja vinnustaði og stofnanir, fara mikið út á land og heyra í fólkinu þar. „Forseti verður að vera í tengslum við fólkið til að vita hvað er að gerast í samfélaginu.“

Hildur Þórðardóttir sagði að breyta þurfi stjórnaskrá í átt að meira lýðræði. Hún líkti núgildandi stjórnarskrá Íslands við gamla einbreiða trébrú sem búið er að laga margoft. „Núna segir fólkið: Við viljum ekki hafa þessa einbreiðu brú lengur. Umferðin er orðin þannig að við þurfum tvíbreiða, ef ekki fjórbreiða brú. Við viljum fá hana steypta, þannig að það sé engin hætta á því að við dettum út í ána.“ Þess vegna telur Hildur mikilvægt að þjóðin fái nýja og nútímalega stjórnarskrá, sem byggist á tillögum Stjórnlagaráðs.

Hildur vill að fólkið hafi völdin. „Mín framtíðarsýn er samfélag, þar sem fólk skiptir meira máli en peningar, samfélagið skiptir meira máli en hagræðing og hagvöxtur. Að við berum virðingu fyrir náttúrunni og öllu lífi í kringum okkur. Að allir fái að blómstra, allir fái þá menntun sem þeir þurfa, endurhæfingu sem þeir þurfa, og hjálp við að vinna úr áföllunum. Að við hugsum um hvern einasta einstakling. Þannig byggjum við upp sterkt samfélag.“

Fimmtudaginn 2. júní, kemur Sturla Jónsson á Morgunvaktina.