Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Forsetinn á að vera viti

Mynd: Óðinn Jónsson / Morgunvaktin
Frambjóðandinn Andri Snær Magnason segir það sé hlutverk forseta Íslands að halda ákveðnum gildum á lofti. Andri Snær líkir forseta Íslands við vita: „Hann heldur á lofti ákveðnum gildum, hvernig sem viðrar og hvernig sem pólitíkin sveiflast, og hún getur gert það á mánaðargrundvelli. Þá eru ákveðin gildi sem forseti Íslands, þjóðkjörinn einstaklingur, heldur á lofti. Þau geta í rauninni verið ofar pólitíkinni og jafnvel eitthvað sem við getum sameinast um.“

Í viðtali við Andra Snæ á Morgunvaktinni á Rás 1 kom fram að hann leggur mikla áherslu á mál sem varða íslenska náttúru, ekki síst hafið. „Ísland er raunverulega fyrst og fremst haf. Landhelgi Íslands er sjö sinnum stærri en landið Ísland. Börnin okkar munu erfa haf, fyrst og fremst.“ Andri Snær segist telja að forsetinn geti stuðlað að aukinni umræðu um náttúruvernd og stór hagsmunamál sem varða umhverfið - ekki síst málefni hafsins.   

Á morgun, þriðjudaginn 24. maí, kemur Guðni Th. Jóhannesson á Morgunvaktina.