Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Forsetinn á að vera ópólitískur

Mynd: Rebekka Blöndal / Morgunvaktin
Frambjóðandinn Guðni Th. Jóhannesson segir það skipta miklu máli að forseti Íslands sé ópólitískur og standi utan fylkinga. Mikilvægt sé að forsetinn eigi sér ekki óskastjórn eða flokk. „Það er ekki þar með sagt að forseti sé skoðanalaus eða veikur, eða nokkuð í þá veruna. Hann stillir til friðar, þegar stilla þarf til friðar, hann tekur í taumana þegar allt er komið í hnút, hann þokar málum áfram í ræðu og riti, bendir fólki á ólík sjónarhorn og þess háttar.“

Guðni Th. Jóhannesson sagði á Morgunvaktinni á Rás 1 að hann telji mikilvægt að forsetinn styðji öll góð mál. Forsetinn eigi ekki að stýra umræðum, heldur á hann að geta fundið hvað brennur á fólki, með því að fylgjast með samfélagshjartslættinum frá degi til dags.  „Það getur ekki verið á herðum eins manns, þótt forseti sé, að reyna að koma sínum skoðunum að í öllum málum. Frekar á hann að hlusta en tala.“

Guðni segir að það væri til bóta að koma því í stjórnarskrána að ákveðinn fjöldi kjósenda geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu. 

Á morgun, miðvikudaginn 25. maí, kemur Ástþór Magnússon á Morgunvaktina.