Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Forsetinn á að vera fyrirliði

Mynd: Óðinn Jónsson / Morgunvaktin
Frambjóðandinn Halla Tómasdóttir telur að forseti Íslands eigi að vera fyrirliði. „Við þurfum fyrirliða, manneskju sem virkjar aðra með sér, hjálpar okkur að mála framtíðarsýn, leggur grunngildi, heldur þeim á loft og virkjar sem flesta í að skapa það samfélag sem við viljum. Þannig forseti myndi ég vilja vera og þannig forseta tel ég að við þurfum á þessum tímapunkti. Ekki einhvern sem veit allt, kann allt, er hetja, hefur sig yfir aðra, er vitrari eða betri."

Halla Tómasdóttir sagði á Morgunvaktinni á Rás 1 að mikilvægt sé að byggja upp traust í samfélaginu, draga fram það mjúka í samfélaginu og innleiða ákveðin gildi: Heiðarleika, réttlæti, jafnrétti og virðingu. „Það er verkið sem ég sé að þarf að vinna: að sætta, sameina - og innleiða þessi gildi í okkar samfélag. Það er samfélagið sem Íslendingar vilja og eiga skilið.“ Halla segist ekki hafa heyrt talað um þá sýn að allir í samfélaginu skipti máli og séu verðmætir. Það skipti mikilu máli að forsetinn leiði þessi gildi til vegs.

Á mánudaginn 30. maí, kemur Elísabet Jökulsdóttir á Morgunvaktina.