Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Forsetinn á að vera boðberi friðar

Mynd: Rebekka Blöndal / Morgunvaktin
Frambjóðandinn Ástþór Magnússon telur að forseti Íslands geti verið boðberi friðar í heiminum: „Hann getur orðið mjög mikilvægur boðberi friðar - og einmitt vegna smæðar okkar þá er hann svo áhrifamikill, vegna þess að þá þarf hann ekki að tengjast neinum einum hagsmunum umfram aðra. Hann verður svona sameiningartákn heimsins.“

Ástþór Magnússon sagði á Morgunvaktinni á Rás 1 að mikilvægt væri að virkja Bessastaði og laða að starfssemi Sameinuðu þjóðanna. Ísland verði friðarríki og fyrirmynd. „Pabbi minn kenndi mér málshátt, sem ég hef oft gripið til: Oft veltir lítil þúfa þungu hlassi. Ég held að íslendingar geti valdi straumhvörfum í þessum málum, í friðarmálum, ef við höldum rétt á spilunum.“

En hver er Ástþór Magnússon og fyrir hvað stendur hann: „Ég er bara einn venjulegra Íslendinga, frá millistétta fjölskyldu sem að hefur ekki haft meiri efni en aðrir, algjörlega byggt sig upp sjálf, kominn af sveitafólki og sjómönnum. En ég fæst ekki keyptur. Það er ekki hægt að kaupa mig. Ég mun standa sem klettur fyrir þjóðina á Bessastöðum, vernda og standa vörð um fullveldi og sjálfstæði Íslands.“

Á morgun, miðvikudaginn 26. maí, kemur Halla Tómasdóttir á Morgunvaktina.