Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Forseti Víetnams látinn

21.09.2018 - 06:18
Erlent · Asía · Víetnam · Stjórnmál
epa07036481 (FILE) - Tran Dai Quang, 60, delivers a speech after being elected President of Vietnam in Hanoi, Vietnam, 02 April 2016 (reissued 21 September 2018). According to media reports on 21 September 2018, President of Vietnam Tran Dai Quang died at
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Forseti Víetnams, Tran Daí Kvang, lést á sjúkrahúsi í nótt eftir langvinn og erfið veikindi. Hann var sextíu og eins árs. Ríkisfréttastofa Víetnams greinir frá þessu. Kvang var lengi undir læknishendi, jafnt í Víetnam sem erlendis, segir í andlátsfréttinni, en allt kom fyrir ekki. Hann tók við forsetaembættinu vorið 2016 eftir áratugaferil í hinu valdamikla ráðuneyti þjóðaröryggis.

Kvang hafði orð á sér sem harðlínumaður og tók hart á öllu andófi gegn stjórnvöldum. Þótt forsetaembættið sé formlega eitt af fjórum æðstu embættum Víetnams þá er það í raun heldur valdalítið og sagt meira til skrauts en nokkuð annað.

Hann lét þó hvorki veikindi sín né meint valdaleysi forsetaembættisins aftra sér frá því að leiða herferð stjórnvalda gegn hópi fólks sem gagnrýnt hefur stjórnvöld á opinberum vettvangi á þessu ári. Amnesty International áætlar að yfir 40 stjórnarandstæðingar hafi verið fangelsaðir fyrir skoðanir sínar það sem af er ári.

Síðasta embættisverk Kvangs var að taka á móti kínverskum stjórnmálamönnum í Hanoi fyrr í þessari viku og var eftir því tekið hve fölur og fár og veikburða hann var til að sjá við það tilefni.
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV