Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Forseti S-Kóreu fagnar leiðtogafundi

19.01.2019 - 04:49
Mynd með færslu
 Mynd:
Forseti Suður-Kóreu fagnar ákvörðun leiðtoga Norður-Kóreu og Bandaríkjanna um að halda annan fund. AFP fréttastofan segir hann vonast til þess að hann leiði til friðar á Kóreuskaga.

Talsmaður Moon Jae-in, forseta Suður-Kóreu, las yfirlýsingu forsetans fyrir fjölmiðla í kvöld, eftir að greint var frá því að Donald Trump Bandaríkjaforseti og Kim Jong-Un, leiðtogi Norður-Kóreu, ætli að halda fund í næsta mánuði. Talsmaðurinn sagði Suður-Kóreu búast við því að ráðstefnan verði vendipunktur í friðarumleitunum á Kóreuskaga. Þá lýsti forsetinn yfir vilja til þess að halda áfram að vinna með Bandaríkjunum að afkjarnorkuvæðingu Kóreuskaga. Auk þess ætla suður-kóresk stjórnvöld að efla viðræður við stjórnvöld í norðri til þess að ýta undir árangur viðræðna leiðtoga Bandaríkjanna og Norður-Kóreu.

Nokkur árangur hefur náðst í umleitunum Norður- og Suður-Kóreu. Ríkin hafa meðal annars unnið að því að grafa upp jarðsprengjur á vopnlausa svæðinu á landamæri ríkjanna, og leggja lestarteina á milli ríkjanna.

Þeir Trump og Kim hittust í Singapúr síðasta sumar þar sem þeir undirrituðu viljayfirlýsingu. Þar samþykkti Trump að leggja niður viðskiptabann á Norður-Kóreu, að því gefnu að ríkið hætti tilraunum sínum með kjarnavopn og flugskeyti. Lítið hefur miðað í samningaátt síðan þá, þar sem ríkin greinir á um hvernig túlka beri yfirlýsinguna.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV