
Forseti Íslands mælir með rafstreng
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, segir að Evrópubúar verði á næstu árum að gera upp við sig hvernig þeir ætli að nýta sér þá miklu hreinu orku sem finnist á norðurslóðum. Rafstrengur frá Íslandi til Bretlands sé mjög áhugaverður fjárfestingarkostur og Ólafur segist hafa verða var við mikinn áhuga fjárfesta.
Forseti Íslands hélt ræðu á orkuráðstefnu Bresk-íslenska viðskiptaráðsins og Bloomberg fréttaveitunnar í Lundúnum í morgun. Bloomberg sjónvarpsstöðin sagði í morgun að Íslendingar vonuðust til að geta lagt rúmlega þúsund kílómetra langan rafstreng frá Íslandi til Bretlands á næstu árum og spurði Ólaf Ragnar út í þær fyrirætlanir.
Ólafur Ragnar sagði að málið snerist ekki eingöngu um hvað Íslendingar ætluðust fyrir heldur einnig hvernig Evrópubúar hygðust hagnýta sér þá gríðarmiklu hreinu orku sem fyndist í norðri. Fréttamaður Bloomberg spurði hvort Íslendingar ætluðust ekki til að breskir skattgreiðendur borguðu lagningu rafstrengsins. Forsetinn svaraði því til að kostnaður við lagningu rafstrengs til Bretlands myndi ekki leggjast á breska skattgreiðendur, heldur væri hann mjög áhugaverður sem alþjóðleg fjárfesting. Hann vissi sjálfur um marga fjárfesta sem hefðu áhuga á að fjárfesta í honum til langframa.