Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Forseti Íslands: „Auðvitað ofbauð mér“

02.12.2018 - 11:54
Mynd:  / 
Forseta Íslands ofbauð talsmáti alþingismanna á Klaustursbarnum. Hann segir þingmennina hafa gerst seka um virðingarleysi og sjálfsupphafningu og vonar að þeir finni það hjá sjálfum sér hvernig eigi að bregðast við.

Upptökur af samtölum sex alþingismanna á Klausturbarnum voru birtar í fjölmiðlum í vikunni. Þar heyrist talað svívirðilega um aðra alþingismenn og fleiri. Á föstudaginn var tilkynnt að tveir þeirra, þeir Gunnar Bragi Sveinsson og Bergþór Ólason, þingmenn Miðflokksins, hefðu tekið sér leyfi frá störfum vegna málsins, og að þeir Ólafur Ísleifsson og Karl Gauti Hjaltason hefðu verið reknir úr Flokki fólksins.

Rætt var við Guðna Th. Jóhannesson, forseta Íslands,  í Silfrinu í morgun. Viðtalið var tekið á föstudaginn, áður en tilkynnt var að Gunnar Bragi og Bergþór væru farnir í leyfi og að búið væri að reka þá Karl Gauta og Ólaf úr Flokki fólksins. Guðni segir að sér hafi brugðið þegar hann heyrði hvað þingmennirnir sögðu. 

„Auðvitað ofbauð mér, eins og öllu fólki sem á þetta hlustaði. Orðfærið, virðingarleysið, sjálfsupphafningin. Og þetta er ekki leiðin til þess að auka traust landsmanna á Alþingi, að viðhafa svona orðfæri, sem er til merkis um einhvern undirliggjandi vanda. Manni ofbauð, það er ekkert flóknara en það,“ segir Guðni.

Hvað gerum við í þessu? Hvernig getum við endurreist traust?
 
„Ekki búum við í þannig samfélagi að sá eða sú sem þessu embætti gegnir segi þingmönnum fyrir verkum, ráði þá eða reki. Allt það er nú í valdi kjósenda. Og svo er samviskan það vald sem frjálsir menn hlýða. Þetta er eitt af okkar eilífðarverkefnum daginn út og daginn inn; að hugsa um það hvernig við getum orðið að liði. Hvernig við getum sagt við okkur að morgni dags: „Nú ætla ég að standa mig í vinnunni.“ Og svo að kvöldi: „Þetta var nú góður dagur.“ Sérstaklega fyrir okkur sem erum í þjóðkjörnum stöðum. En ég held að það yrði ekki til framdráttar góðum málstað ef ég færi að setja mig á afskaplega háan stall og segja öðrum til syndanna. En um leið leyfir maður sér að vona að fólk finni hjá sjálfu sér hvað það hefur gert og hvernig beri að bregðast við,“ segir Guðni.