Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Forseta- og þingkosningar í Líberíu í dag

10.10.2017 - 05:38
epa06255008 President of Liberia Ellen Johnson Sirleaf addresses the nation ahead of presidential election at the presidential palace in Monrovia, Liberia, 09 October 2017.  Liberians head to the polls on 10 October in the very first African nation to
Ellen Johnson Sirleaf, fyrsta konan sem kjörin var þjóðhöfðingi Afríkuríkis, hefur setið í tólf ár og má ekki bjóða sig fram aftur. Hún fékk friðarverðlaun Nóbels 2011 ásamt löndu sinni Leymah Gbowee og Tawakkol Karman frá Jemen. Mynd: EPA-EFE - EPA
Þingkosningar og fyrri umferð forsetakosninga fara fram í Líberíu í dag. Núverandi forseti og friðarverðlaunahafi Nóbels, Ellen Johnson Sirleaf, er ekki í framboði þar sem stjórnarskráin kveður á um að forseti megi ekki sitja lengur en tvö, sex ára kjörtímabil. 20 frambjóðendur bítast um að verða eftirmenn hennar. Ekki er útlit fyrir að neinum þeirra lánist að tryggja sér hreinan meirihluta í fyrri umferðinni. Því verður að líkindum kosið milli tveggja efstu manna í annarri umferð 7. nóvember.

Skoðanakannanir heimamanna bentu lengi vel til þess að slagurinn stæði fyrst og fremst milli varaforsetans Josephs Boakai og fótboltahetjunnar George Weah, sem tapaði fyrir Sirleaf 2006. Samkvæmt þeim er Boakai töluvert sterkari, en hann hefur verið varaforseti Sirleafs alla hennar valdatíð, og tilheyrir Einingarflokknum.

Ný skoðanakönnun, gerð af alþjóðlegu fyrirtæki á sviði skoðanakannana, bendir aftur á móti til þess að þrír frambjóðendur séu efstir og nokkurnveginn jafnir; þeir Boakai, Weah og frambjóðandi Frelsisflokksins, Charles Brumskine. Samkvæmt þeirri könnun er Weah með örlitla forystu á Brumskine en Boakai ekki langt undan í þriðja sætinu. Í þingkosningunum er kosið um öll 73 sætin í neðri deild þingsins í jafn mörgum einmenningskjördæmum. Þar er Einingarflokkurinn stærstur með 25 þingmenn í dag, en flokkur Weah, Lýðræðislegi umbótaflokkurinn, er næst-stærstur með 10 þingmenn. 

2,1 milljón manns er á kjörskrá og búist er við að úrslit liggi nokkurn veginn fyrir innan tveggja sólarhringa frá lokun kjörstaða.
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV