Forsætisráðherra segir loforð ekki svikin

07.04.2017 - 18:51
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Forsætisráðherra hafnar því að ríkisstjórnin svíki loforð um bættan hag, öryrkja, aldraðra og heillbrigðiskerfið. Sjaldan hafi verið eins mikið gert og nýta eigi góðærið til að styrkja innviðina.

 

Alþingi greiddi atkvæði í gærkvöldi um fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar og var hún samþykkt með þriggja atkvæða mun 30:27. Forsætisráðherra segir aðalatriðið að stjórnarliðar greiddu allir atkvæði með stefnunni. Í fjámálastefnunni eru markmiðin sett fram sem hlutfall af vergri landsframleiðslu, en í fjármálaætlun er sett fram frekari útfærsla á þeim markmiðum. Áætlunin er nú til meðferðar hjá fjárlaganefnd þingsins.

Bjarni segir mikilvægt og það sé þroskamerki að þingið ræði að vori hvernig næsta ár líti út í grófum dráttum og sú umræða bætist við fjárlagaumræðuna. Hann segir ekki rétt að ríkisstjórnin svíki loforð um aukið fjármagn í heilbrigðiskerfið og almannatryggingakerfið. Bætt hafi verið í á þessu ári og meira verði gert, auk þess sem skuldir hafi verið lækkaðar og tekjuafgangur sé á ríkissjóði.

„Ég hafna því alfarið að við séum að svíkja þau loforð sem gefin voru og við erum að starfa í samræmi við stjórnarsáttmálann, meðal annars í að forgangsraða sérstaklega til heilbrigðisþjónustu í landinu.“

Ekkert varð úr sérstakri umræðu í þinginu um fátækt. Bjarni segist ekki hafa skýringu á því, en sú umræða sé, með beinum og óbeinum hætti, alltaf lifandi í þingstörfunum og lúti ekki síst að almannatryggingakerfinu og þar hafi verið gerðar miklar breytingar. Í fjármálaáætlun núna sé meira gert, til dæmis með því að draga úr lífeyrisskerðingu eldri borgara vegna vinnu. Hann fullyrði að sjaldan hafi verið hægt að gera meira í þessum efnum, því tekjur ríkisins hafi aukist og vel ári og inniviðaverkefni njóti góðs af slíkum tímum.

Er það ekki það sem stjórnarandstaðan segir, nú árar vel og því sé hægt að gera mun betur?

„Við erum að gera það, við erum að gera það á öllum sviðum,“ segir Bjarni Benediktsson forsætisráðherra.

 

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV