Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Forsætisráðherra fagnar framboði Ólafs Ragnars

18.04.2016 - 18:03
Mynd: RÚV / RÚV
Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins, fagnar framboði Ólafs Ragnars Grímssonar, til endurkjörs. Sigurður Ingi segir að Ólafur hafi reynst þjóðinni vel, bæði innanlands og ekki síður á erlendri grundu. Forsætisráðherra segir hafa átt gott samstarf við Ólaf Ragnar.

Hann segir ekki óeðlilegt að fram fari umræða um hve lengi forseti eigi að sitja.

Þetta segir Sigurður Ingi í samtali við fréttastofu. „Ég fagna í sjálfu sér yfirlýsingu Ólafs Ragnars, hann hefur reynst þjóðinni vel á síðustu árum bæði hér innanlands og ekki síst á erlendri grundu og þjóðin hefur sýnt það áður að hún treystir honum til verka og ég býst við að hann sé að svara ákalli þeirra sem við hann hafa talað,“ segir Sigurður Ingi.

Hann segist hafa átt ágætt samstarf við Ólaf Ragnar og hlakka til þess að halda því samstarfi áfram, verði það niðurstaða kosninganna. Hann segist telja líklegt að Ólafur Ragnar nái endurkjöri.

„Mér finnst það nú frekar líklegt já svona miðað við traust mælingar á Ólaf Ragnar á undanförnum mánuðum sem og stöðu hans í samfélaginu.“

Verði þetta raunin og sitji Ólafur Ragnar út kjörtímabilið þá situr hann í 24 ár. Aðspurður hvort það sé ekki of langur tími, segir Sigurður Ingi það eitthvað sem þurfi að ræða. „Það er auðvitað eitthvað sem við þurfum að ræða hversu lengi menn eiga að gegna slíkum stöðum hvort það eigi að vera einhver takmörk á því það er ekki fyrir hendi í dag en það er ekkert óeðlilegt að slík umræða myndi fara fram,“ segir Sigurður Ingi.