Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Forsætisráðherra braut gegn siðareglum

15.08.2019 - 01:31
Mynd með færslu
Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada. Mynd:
Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, braut siðareglur þegar hann bað ríkissaksóknara um að semja við verktakafyrirtækið SNC-Lavalin. AFP fréttastofan greinir frá. Þetta er niðurstaða sjálfstæðrar nefndar sem metur brot á siðareglum meðal kanadískra stjórnmálamanna.

Ljóstrað var upp um hegðun Trudeaus fyrr á árinu. Jody Wilson-Raybould, þáverandi ríkissaksóknara, greindi opinberlega frá því að Trudeau hafi þrýst verulega á hana um að semja við verktakafyrirtækið utan dómstóla. Hún tók alltaf fyrir það, og er mál gegn fyrirtækinu á leið til dómstóla. Í úrskurði siðanefndar segir að Trudeau hafi reynt að beita áhrifum sínum gegn ríkissaksóknara og ákvörðun hennar í dómsmáli. Þær Wilson-Raybould og fjármálaráðherrann Jane Philpott sögðu sig úr embætti í apríl. Trudeau rak þær báðar úr Frjálslynda flokknum.

SNC-Lavalin er sakað um að hafa greitt jafnvirði rúmlega fjögurra milljarða króna í mútur á milli áranna 2001 og 2011 til þess að tryggja sér samninga í Líbíu. Eins er fyrirtækið talið hafa svikið jafnvirði rúmlega 12 milljarða króna frá líbískum stjórnvöldum. Verði fyrirtækið sakfellt fyrir dómi verður það svipt öllum samningum við kanadísk stjórnvöld. Að sögn fyrirtækisins gæti það kostað um 9.000 störf. Trudeau notar málsvörn fyrirtækisins sem sína eigin. Hann segist aðeins hafa hugsað um að bjarga kanadískum störfum, því Kanadamenn búist við því af honum.

Trudeau þarf að greiða sekt sem nemur 500 kanadadollurum, jafnvirði um 46 þúsund króna. Þó refsingin komi ekki sérlega illa við pyngjuna eru líkur á því að skellurinn verði verri fyrir pólitíska framtíð forsætisráðherrans. Aðeins tveir mánuðir eru til þingkosninga í Kanada, og sýna nýjustu kannanir að Íhaldsflokkurinn hefur komið sér þétt að hlið Frjálslynda flokknum.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV