Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Fórnarlambamelódía

Mynd: Hörður Sveinsson / leikhusid.is

Fórnarlambamelódía

21.04.2017 - 16:02

Höfundar

María Kristjánsdóttir fór að sjá Álfahöllina sem nú er á fjölum Þjóðleikhússins. Hún telur að Þorleifur Örn þurfi að taka sér meiri tíma fyrir sýningar sínar og losa sig við svokallaðan „póstmódernískan“ þankagang til þess að standa undir þeim væntingum sem leikhúsunnendur gera til hans.

María Kristjánsdóttir skrifar:

Dýrin í Hálsaskógi

Ég hef lesið tvö viðtöl og hlustað á það þriðja við Þorleif Örn Arnarsson, leikstjóra, og einn af höfundum Álfahallarinnar sem frumsýnt var í Þjóðleikhúsinu á laugardagskvöld. Í öllum kemur fram aðdáun hans á þjóðleikhússtjóra sem sýnt hafi það hugrekki að treysta honum til að skipta um hest í miðri á. Hætta við að leikgera þýskt verk um tilurð hægri sinnaðra populista og þess í stað að rannsaka, semja og setja upp þætti úr sögu og starfi Þjóðleikhússins í tengslum við samtímann svo þjóðin geti skoðað sjálfa sig í spegli listarinnar. Þó ég sé ekki þeirrar skoðunar að leikhúsið eigi eða geti speglað eitt eða neitt þá er ég sammála Þorleifi um að þetta er hugrökk ákvörðun hjá stjóranum og sýnir mikið traust. En stendur Þorleifur undir traustinu?

Mynd með færslu
 Mynd: Hörður Sveinsson - leikhusid.is

Sýningin byrjar vel. Á sviðinu „speglar“ Börkur Jónsson reyndar salinn fallega sem við sitjum í . Rauða fortjaldið, smækkað,  blasir því við aftast um leið og það raunverulega er dregið frá undir upptöku af metnaðarfullri  ræðu Vilhjálms Þ. Gíslasonar við opnun Þjóðleikhússins. Leikararnir átta, þau: Aldís Amah Hamilton, Arnar Jónsson, Atli Rafn Sigurðarson, Baldur Trausti Hreinsson, Hallgrímur Ólafsson, Lára Jóhanna Jónsdóttir, Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Ólafur Egill Egilsson, Sigurður Þór Óskarsson, Vigdís Hrefna Pálsdóttir og  Þórir Sæmundsson týnast síðan  inn á sviðið með andlitsgrímur sem þau halda fyrir andliti, myndir af horfnum leikhúsfrömuðum.   Þau fella eitt af öðru grímurnar kynna sig sjálf sig til leiks (þau eru sögumennirnir), kynna frömuðina og tilurð Þjóðleikhússins sem við fátæk, fámenn þjóð reistum á löngum tíma. Borgarastéttinni nær einni að sjálfsögðu var þó boðið til opnunarinnar, samkvæmisklæðnaðar krafist.

 Svo vindur sýningunni fram. Flutt eru stutt atriði úr leiksýningum fyrri tíma. Þar eru fyrir hlé rómantískur „Fjalla Eyvindur“, „Stundarfriður“, „Þetta er allt að koma“, „Elín, Helga, Guðríður“ og „Inúk“  ‒ eftir hlé „Sjálfstætt fólk“ og „Pétur Gautur“. Inn í atriðin fléttast áherslulaust en  skemmtilega ýmislegt úr sjálfri leikhúsvinnunni: samlestur, það að muna texta, leikmunavarsla, gagnrýni og sjálfhverfa leikarans.  En líka er minnt á ábyrgð hússins gagnvart sögunni, hvernig á síðustu áratugum  leikminjum, leikmyndum og búningum hefur verið kastað á haugana.  Og þriðja stefið í sýningunni er nálægur samtími sem oftast brýst  með látum inn í og á milli gömlu leiksýninganna. Trúður, Þóris Sæmundssonar, skapar einnig fjölbreytta og skemmtilega andhverfu í ýmsum  atriðum. Í hléi er hinsvegar óþarfi að rísa úr sætum því þá flytja leikararnir öll lög sem flutt hafa verið á sviði hússins frá upphafi eða það segja þeir. Hringsviðið snýst , á því miðju, turn þar sem Börkur hefur snilldarlega einsog hrúgað saman brotum úr leikhúsinu, flekum , leikmunum, veggjum. Efst gengur þar óskýr lúpa af vídeómyndum úr Pétri Gauti. Og í turninum , við hann,  á endalausum snúningi með sviðinu eru leikararnir í undrabúningum Sunnevu Ásu Weissappel, leikandi á hljóðfæri, syngjandi brot úr ýmsum verkum og þar dansar sá áhugaverði leikari Sigurður Þór Óskarsson ballett, ekki missa af því.

Mynd með færslu
 Mynd: Hörður Sveinsson - leikhusid.is

Eins og oft byggist þessi sýning Þorleifs á hugmyndum leikaranna, sem eru margar hverjar frábærar, en hann vinnur síðan úr þeim, ásamt öðrum handritið, að þessu sinni með Jóni Atla Jónassyni.  Þá hefur hann einnig  dramatúrga og listamenn sér til halds og trausts. Í meginatriðum er  ekki margt að finna að strúktúr handritsins eða samtölum þó strika hefði mátt sumt út, ydda annað. En það er úrvinnsla í leik, hugsunin eða óreiðan í hugsun að baki úrvinnslunnar sem ég stend nær agndofa frammi fyrir. Sjálfsagt er að gera grín að sögu Þjóðleikhússins, því við vitum að þar hefur margur amatörinn fengið að valsa um gegnum tíðina, þó sýningarnar sem hér eru notaðar séu ekki beinlínis dæmigerðar fyrir það en samt algjör óþarfi að sparka neðan beltisstaðar eins og gerist a.m.k einu sinni. Sjálfsagt líka að lýsa þjóðinni sem jarmandi sauðkindum sem sameinist einungis í víkingaöskri. Við vitum það líka, við erum fífl. En að subbast í leik með ákveðin atriði eins og til dæmis kynþáttahatrið í samfélaginu svo það verður merkingarlaust er ekki forsvaranlegt . Sömuleiðis var til dæmis  undarlegt að sjá þá breytingu sem varð frá aðalæfingu til frumsýningar á góðri hugmynd um skiptingu þjóðarkökunnar. Á meðan áhorfendur fylgdust á aðalæfingu, negldir niður, með hvernig Ólafur Egill Egilsson skipti af smásálarlegri nákvæmni kökunni svo við við að lokum fundum sárt til með þeim ekki fengu neitt, þá hafði Ólafur augljóslega fengið þá instrúktsjón milli sýninga að hraða þessu öllu, kýla á það, svo úr varð bara merkingarlaust grín um eitthvað sem allir vissu.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kastljós

Og það er hængurinn á þessari sýningu, hún staðfestir einungis ítrekað það sem allir vita. Hún dýpkar ekkert mál og vekur enga nýja hugsun. Skýrast verður það í umfjölluninni um fátæktina í samfélaginu sem tekur öll völd eftir hlé. Þar er eins og sú umræða og hræringar sem eiga sér nú stað beggja megin Atlandsála um hvernig eða hvort sé hægt að bylta hinu kapitalíska kerfi svo útrýma megi fátæktinni hafi bara farið fram hjá mönnum í Þjóðleikhúsinu Þeir spegla bara það sem var: Fórnarlambamelódíuna og samræðuhjal stéttanna, andinn úr Dýrunum í Hálsaskógi svífur eiginlega í allri sýningunni yfir vötnum. Nema kannski hjá Vigdísi Hrefnu sem einstaka sinnum fær að skjóta inn skarpri athugasemd og vekur athygli fyrir nákvæman leik og alvöru, söngur hennar líka áhrifamikill.

Ég veit ekki hvort Þorleifur Örn brást trausti þjóðleiksstjóra  en hann brást trausti mínu og áhorfenda sem ekki eru samkvæmisklæddir. Vissulega kitlaði hann hláturtaugarnar alloft, en það nægir ekki þegar fjallað er um alvörumál. Það þarf meira. En þetta meira verður ekki kallað fram með því að setja upp sex eða sjö sýningar á ári, þá gefst enginn tími til að kafa í hlutina, koma okkur áhorfendum  á óvart, beina hugsunum inn á nýjar brautir eða fá okkur einfaldlega til að hugsa. Hugmyndaríkir leikarar og góðir listrænir samstarfsmenn vinna ekki þá vinnu nema að ákveðnu marki fyrir leikstjórann. Þorleifur Örn þarf að fara að taka sér tíma fyrir hverja sýningu, losa sig við svokallaðan „póstmódernískan“ þankagang sem reynst hefur gagnslítill og standa undir þeim væntingum sem við fjölmörg höfum gert til hans alveg frá upphafi og gerum enn ‒ og það ekki að ástæðulausu.