Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Forn sylgja ekki í eigu Snorra Sturlusonar

Mynd með færslu
 Mynd:

Forn sylgja ekki í eigu Snorra Sturlusonar

16.10.2013 - 22:05
Forn skrautsylgja fannst í moldarbarði ofan Húsafells í Borgarfirði í sumar. Hún hefur ekki enn verið nákvæmlega aldursgreind en var þó vart í eigu Snorra Sturlusonar enda skeikar minnst nokkrum áratugum.

Frá fornleifafundinum er greint í Skessuhorni, fréttablaði Vesturlands. Edda Arinbjarnar sem búsett er í Húsafelli var ásamt systur sinni í fjallgöngu á Útfjalli og fann sylgjuna sem eru úr kopar. Henni var komið í hendur Þjóðminjasafns. Í Skessuhorni er bent á að á styttunni af Snorra Sturlusyni í Reykholti, sem gerð var á síðustu öld, sé hann með sams konar sylgju. Og því gæti sú sem fannst hafa verið í eigu hans.  

Lilja Árnadóttir, fagstjóri munasafns Þjóðminjasafnsins segist telja að hún geti verið frá tímabilinu 1300 og alveg fram yfir 1500, en í rauninni eigi eftir að kanna það. Snorri dó á fyrri hluta 13. aldar, 1241, en Lilja segir alltaf skemmtilega að tengja þetta fólki og kveðst skilja frændur sína Borgfirðinga, en það geti verið erfitt að sanna það mál.

Sams konar sylgjur eru til á Þjóðminjasafninu og í Evrópu. Ekki hefur tekist að greina táknin á sylgunni en á henni er lítill leðurbútur. Minjastofnun var eins og lög gera ráð fyrir gert viðvart en stofnunin getur kannað fundarstaðinn og reynt að meta aldurinn út frá jarðlögum. Talið er að það verði erfitt í þessu tilfelli því sylgjan fannst í uppblæstri. Lilja segist telja það alveg óyggjandi að einhver höfðingi hafi borið hana. Það hafi ekki verið neinn kotungur sem hafi borið svona skart.