Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Formlegar viðræður hefjast á morgun

01.01.2017 - 19:05
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Formenn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar hefja formlegar stjórnarmyndunarviðræður á morgun. Þetta er í annað sinn sem flokkarnir gera tilraun til að mynda meirihluta en þeir áttu í formlegum viðræðum strax eftir þingkosningarnar í október.

Formaður Sjálfstæðisflokksins fékk fyrir helgi umboð forseta til að hefja viðræðurnar og er gert ráð fyrir að menn hefjist handa á morgun.

Fram hefur komið að flokkarnir hafa náð sátt um stefnu í veigamiklum málaflokkum, svo sem sjávarútvegsmálum. Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, sagði í fréttum Stöðvar 2 í kvöld að hann vonaðist til þess að niðurstaða gæti legið fyrir í vikulok.  Benedikt sagði í Kryddsíld Stöðvar 2 í gær að hann teldi 87,5 prósent líkur á því að flokkarnir næðu saman.

Tveir mánuðir eru nú frá kosningum og forsetinn hefur fjórum sinnum deilt út stjórnarmyndunarumboðinu. Fyrst til Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins sem reyndi að mynda stjórn frá miðju til hægri. Svo var röðin komin að Katrínu Jakobsdóttur sem reyndi fimmflokka-stjórn frá miðju til vinstri. Þegar þær tilraunir fóru út um þúfur ákvað forsetinn að veita engum formlegt stjórnarmyndunarumboð heldur gefa leiðtogunum andrými.

Á því tímabili ræddu til að mynda Katrín og Bjarni saman um að flokkarnir tveir kæmu að myndun nýrrar ríkisstjórnar en það gekk ekki eftir. Forsetinn ákvað því að veita Pírötum stjórnarmyndunarumboðið og þeir blésu nýju lífi í fimmflokka-viðræðurnar. Eftir tíu daga fundarhöld gengu þeir þó á fund forseta Íslands og skiluðu stjórnarmyndunarumboðinu.

Forsetinn ákvað aftur að gefa stjórnmálamönnunum frið - nú til að ljúka þingstörfum og klára fjárlagafrumvarpið. Eftir að þeirri vinnu lauk bárust fréttir af óformlegum viðræðum Bjartrar framtíðar, Viðreisnar og Sjálfstæðisflokks.  

30. desember gekk Bjarni Benediktsson svo á fund forseta Íslands og fékk umboð til að hefja formlegar stjórnarmyndunarviðræður. Ekki hefur verið gengið frá skiptingu ráðuneyta að öðru en að Sjálfstæðisflokkurinn fær forsætisráðuneytið.
 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Kári Gylfason
Fréttastofa RÚV