Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

„Formlega séð ríkir stjórnarkreppa“

01.12.2016 - 19:48
Mynd: RÚV / RÚV
Eiríkur Bergmann Einarsson, stjórnmálafræðiprófessor, segir að stutta svarið við spurningunni um hvort skollinn sé á stjórnarkreppa á Íslandi sé já. Formlega séð ríki stjórnarkreppa í landinu. Það sé hins vegar mjög dramatískt orð - hér sé ekkert neyðarástand þótt hérna sé formlega stjórnarkreppa.

Forseti Íslands hefur boðað alla formenn stjórnmálaflokkanna á sinn fund í fyrramálið. Fyrstur til að mæta klukkan tíu er Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, en ráðgert er að fundirnir standi í hálftíma. Þeir verða ekki á Bessastöðum heldur á skrifstofu forsetans við Sóleyjargötu.

Fyrr í dag varð ljóst að ekkert yrði af formlegum stjórnarmyndunarviðræðum VG og Sjálfstæðisflokks. Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, vildi í samtali við fréttastofu í dag ekki útiloka möguleikann á þjóðstjórn ef formönnum flokkanna tækist ekki að ráða fram úr vandanum. Því var Bjarni Benediktsson ósammála.

Eiríkur Bergmann segir vandann við þjóðstjórn að hún sé neyðarúrræði. „Gallinn er að þá er enginn valkostur og að því leyti er hún í eðli sínu ólýðræðislegt fyrirbæri nema bara til að brúa eitthvað tiltekið ástand eða sinna mjög afmörkuðu verkefni en ekki strax í kjölfar kosninga.“ 

Eiríkur segir það hafa legið fyrir að tveir kostir væru augljósir - fimm flokka stjórn frá miðju til vinstri og svo þriggja flokka stjórn frá miðju til hægri. Hugsanlega verði menn að taka annan snúning á þessum viðræðum.

Og Eiríkur gerir því ráð fyrir að þessi munstur verði tekin aftur til skoðunar.  „Eða þá eitthvað alveg nýtt. Þetta er orðið þannig ástand að menn verða að finna einhverja skapandi lausn. Forsetinn er búinn að boða þá fund til sín á morgun og hann talar kannski við þá með hrútshornum tveim og gerir þeim grein fyrir ábyrgð sinni.“

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV