Formenn ræddu við þingmenn sína

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhanna Vigdís - RÚV
Formenn stjórnarmyndunarflokkanna þriggja hafa notað daginn til þess að ræða einslega við þingmenn sína og einhverjir halda því áfram á morgun. Þetta er venjan í aðdraganda þess að ríkisstjórn er mynduð en ekkert frekar er gefið upp um þau samtöl.

Síðdegis á morgun heldur Sjálfstæðisflokkurinn flokksráðsfund í Valhöll þar sem greidd verða atkvæði um málefnasamning flokkanna. Á sama tíma fundar flokksráð Vinstri grænna fram á kvöld á Grand hóteli um samninginn og Framsóknarmenn á Hótel Sögu annað kvöld. Þingflokkarnir hittast á fimmtudagsmorgun og er þá viðbúið að ráðherraefni verði kynnt.

Eins og fram kom í máli forseta Íslands á Bessastöðum í morgun verður boðað til ríkisráðsfunda á fimmtudag, sennilega síðdegis, þar sem formleg stjórnarskipti fara fram. 
 

johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi