Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Formenn í NA hvetja Sigmund til að halda áfram

Mynd með færslu
 Mynd: Hilmar Kári Hallbjörnsson - RÚV
Skiptar skoðanir eru meðal formanna Framsóknarfélaga í Norðausturkjördæmi um niðurstöðu formannskjörs á flokksþinginu í gær, þar sem Sigurður Ingi Jóhannsson var kjörinn nýr formaður Framsóknarflokksins. Sumir eru kampakátir með nýja formanninn, aðrir segja að flokkurinn hafi gert stórkostleg mistök að halda Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni ekki inni. Norðausturkjördæmi er heimakjördæmi Sigmundar sem varði oddvitasæti sitt með yfirburðakosningu í prófkjöri um miðjan síðasta mánuð.

Langflestir formennirnir eru þó á einu máli um að Sigmundur eigi að halda áfram í flokknum og leiða listann í kjördæminu inn í kosningar. Þá sammælast flestir einnig um að formannskosningin hafi verið lýðræðisleg og niðurstöður slíkra kosninga beri að virða. Alls eru 21 Framsóknarfélag í Norðausturkjördæmi, misfjölmenn. Fréttastofa sló á þráðinn til formannanna. 

Fagna nýjum formanni
Óskar Ingi Sigurðsson, formaður Framsóknarfélagsins á Akureyri og nágrenni, sem er fjölmennasta félagið í kjördæminu, fagnar niðurstöðu gærdagsins. „Ég er voða glaður,” segir hann. „En það eru ekki allir glaðir, það get ég sagt þér.”

Þórarinn Ingi Pétursson, formaður Landssambands sauðfjárbænda, var formaður Framsóknarfélags Grýtubakkahrepps þar til hann sagði sig nýlega úr Framsóknarflokknum, er líka mjög sáttur. Hann segir það vel koma til greina að skrá sig aftur í flokkinn eftir úrslit gærdagsins. „Sigurður Ingi getur gert góða hluti,” segir hann.  

Einar Þorsteinn Pálsson, hjá Framsóknarfélagi Dalvíkur, segir niðurstöðuna til framdráttar fyrir flokkinn. „Sigmundur Davíð gerði líka margt gott og Lilja er mjög efnileg,” segir hann. „En Sigurður Ingi er ekkert síðri.”

„Aldrei verið þyngra hljóð í mér”
Þorgrímur Sigmundsson, formaður Framsóknarfélags Þingeyinga, er afar ósáttur með úrslitin. Hann hefur enn ekki tekið ákvörðun um hvort hann ætli að segja sig út flokknum.

 „Það hefur aldrei verið þyngra hljóð í mér. Ég held að flokkurinn hafi þarna gert einhver stærstu mistök sem hann hefur nokkru sinni gert,” segir hann. „Mér þótti framganga einstakra þingmanna allsérstök og svo vakti það athygli mína hvernig húsið fylltist á örfáum mínútum rétt fyrir kosningu. Það lagðist illa í mig. Ég var viss um eftir laugardaginn að Sigmundur mundi standa þetta af sér, en þegar ég sá hvernig húsið fylltist fékk ég slæma tilfinningu.” Þorgrímur bíður nú eftir viðtali við Sigmund Davíð og segist auðvitað vona og reikna fastlega með að hann fari inn sem oddviti Norðausturkjördæmis. 

Helgi Örlygsson, formaður Framsóknarfélagsins í Eyjafjarðarsveit, tekur í svipaðan streng. „Ég er hundfúll og þetta er flokknum ekki til framdráttar,” segir hann. „En svona er þetta, sumir vinna og aðrir tapa. Það verður bara að koma í ljós hvernig þetta þróast. En þó að ég sé ekki sáttur, fer ég ekki úr flokknum í fússi. Ég held áfram að vinna fyrir Framsóknarflokkinn.”
 
Guðný Gestsdóttir, formaður Framsóknarfélags Aðaldæla, er heldur ekki sátt. „Ég er ekki mjög hress. En ég vona að Sigmundur harki af sér og haldi áfram með okkur. Þetta voru mikil átök og erfitt þing, en nú þarf að herða af sér númer eitt, tvö og þrjú og halda sínu striki,” segir Guðný. „Við þurfum á honum að halda og hann hefur á því að halda að halda áfram.”

Jón Kort Ólafsson, formaður Félags ungra Framsóknarfmanna á Siglufirði, vildi lítið segja. „Nó komment bara. En ég er ekki ánægður og vill að sjálfsögðu að Sigmundur Davíð leiði listann í Norðaustur inn í kosningar.” Það sama sögðu Aðalbjörn Arnarsson, formaður Framsóknarfélags Norður Þingeyjarsýslu - austan heiðar, og Jónas Bjarki Björnsson, hjá Framsóknarfélagi Breiðdæla. 

„Það þýðir ekkert að fara í fýlu”
Flestir formennirnir bentu á að farið hafði fram lýðræðisleg kosning og það beri að virða. 

Eygló Björg Jóhannsdóttir, formaður Kjördæmissambands Framsóknarmanna í Norðausturkjördæmi, segist bjartsýn á að það takist að sameina flokkinn og undirstrikar að lýðræðið beri að virða. 
„En ég vonast til að Sigmundur leiði listann inn í kosningar. Kosningin hans sýndi að hann nýtur trausts í kjördæminu.” 

Kristinn Ingi Pétursson, formaður Framsóknarfélags Reykdæla, segist hlakka til komandi tíma. 
„Það er mikil bjartsýni og góð merki um að flokknum gani vel í næstu kosningum,” segir hann. „Ég er alltaf sáttur með lýðræðið, það er aldrei hægt að vera annað. Þetta er vilji flokksins og það er aldrei hægt að vera ósáttur með það.”
 
Þorgeir Bjarnason, formaður Framsóknarfélags Fjallabyggðar, tekur í sama streng. „Þetta er lýðræðið og menn verða bara að sætta sig við það,” segir hann. „Mér lýst ágætlega á Sigurð.” 

Guðný Ingimundardóttir, Framsóknarfélag Djúpavogs, segist einfaldlega ætla að taka hlutunum eins og þeir eru. 
„Það þýðir ekkert að fara í fýlu, hvar sem maður stendur,” segir hún. „Ég vonast til að Sigmundur leiði áfram listann í Norðausturkjördæmi og vona líka að það náist sátt með Sigurð Inga sem formann.” 

Þorvaldur P Hjarðar, Framsóknarfélag Héraðs og Borgarfjarðar, segir að lýðræðislega niðurstöðu kosningar beri að virða. Í því ljósi hljóti Sigmundur Davíð að leiða listann í Norðausturkjördæmi inn í kosningar. Um Sigurð Inga segir hann: „Við styðjum alltaf formanninn.”

Margrét Jónsdóttir, formaður Framsóknarfélags Ljósavatnshrepps, bendir á að mikið hafi gengið á undanfarið. „En ég er manneskja sátta og friða og vona því að þetta leysist farsællega,” segir hún. „Það er ekki óskastaða að þetta sé orðið svona, en ég vona að við höfum lag á því að leysa þetta og leita sátta.”  

Ekki náðist í formenn Framsóknarfélaga Bárðdæla, Mývatnssveitar, Vopnafjarðar, Seyðisfjarðar eða Fjarðarbyggðar. 

sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
Fréttastofa RÚV