Formenn funduðu um fiskeldismálið í gær

Mynd með færslu
 Mynd: Jón Þór Víglundsson - RÚV
Formenn stjórnarflokkanna funduðu í gær með bæjarstjóra Vesturbyggðar og oddvita Tálknafjarðarhrepps ásamt sveitastjórnarmönnunum í þessum tveimur bæjarfélögum. Þetta kemur fram á Facebook-síðu Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra,. Hún segist vona að farsæl lausn finnist á máli sveitarfélaganna tveggja eftir að úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál ógilti rekstrarleyfi til sjókvíaeldis á Vestfjörðum.

Katrín segir að formenn stjórnarflokkanna hafi upplýst á þessum fundi að bæði sjávarútvegsráðherra og umhverfisráðherra séu með til skoðunar hvaða leiðar séu færar til þess að geta meðalhófs í þessu máli „þannig að fyrirtæki geti almennt fengið sanngjarnan frest til að bæta úr þeim annmörkum sem koma fram í kæruferli.“ Það sé hennar von að farsæl lausn finnist á þessu máli sem fyrst.

Þar með hafa allir oddvitar ríkisstjórnarinnar tjáð sig um stöðuna á Vestfjörðum. Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, sagði á Facebook-síðu sinni í gær, að óvissuástandið á Vestfjörðum væri með öllu óviðunnandi. Bregðast verði hratt við og svara því hvernig eigi að tryggja rétt þeira sem í hlut eiga gagnvart stjórnvöldum. 

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra, sagði á Facebook-síðu sinni í morgun að finna þyrfti skynsamlegar lausnir og að uppbygging fiskeldis á Vestfjörðum ætti þátt í því að tekist hafi að snúa íbúafækkun í landshlutanum við. „Það er heldur ekkert óeðlilegt að á einstökum atvinnugreinum séu skiptar skoðanir en það verður að gera þá kröfu til þeirra sem um málin fjalla að þeir fari ekki með rangt mál - jafnvel staðlausa stafi.

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála felldi úr gildi rekstrarleyfi sem Matvælastofnun hafði veitt Fjarðalaxi og Arctic Sea Farm til laxeldis í sjókvíum í Patreks- og Tálknafirði, sem og starfsleyfi frá Umhverfisstofnun. Fyrirtækin ætla að bera þær ákvarðanir undir dómstóla og fóru fram að þau fengju að starfa á meðan á því ferli stendur, en nefndin hafnaði því.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi