Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Formaður Þjóðhátíðar hættir

06.08.2012 - 01:31
Mynd með færslu
 Mynd:
Páll Scheving Ingvarsson, formaður Þjóðhátíðarnefndar ÍBV, gefur ekki kost á sér til áframhaldandi setu í nefndinni. Þetta kom fram í tilkynningu sem birt var í Herjólfsdal í nótt að loknum brekkusöng.

Tryggvi Már Sæmundsson, framkvæmdastjóri ÍBV, hefur átt sæti í Þjóðhátíðarnefnd í ríflega áratug líkt og Páll. Hvorugur þeirra mun gefa kost á sér áfram, en kosið er í nefndina til eins árs í senn.

Páll Scheving og Tryggvi Már sögðu í samtali við fréttastofu RÚV að ríflega áratugur væri ágætt framlag til sögu hátíðarinnar. Aðspurður hvort ákvörðunin væri að hluta til vegna heitrar umræðu um Þjóðhátíð undanfarin misseri frá ýmsum hliðum, sagði Páll að vissulega tæki það sinn toll að gegna þessu ábyrgðarfulla starfi í svo langan tíma. Gott sé að fá nýja menn að borðinu nú þegar mikið er rætt um þróun hátíðarinnar.

Páll starfar einnig sem framkvæmdastjóri fiskimjölsverksmiðju í Eyjum. Þá er hann oddviti minnihluta Vestmannaeyjalistans í bæjarstjórn. Tryggvi Már mun áfram gegna starfi framkvæmdastjóra ÍBV.