Tilkoma snjallsíma og samfélagsmiðla hefur ekki aðeins valdið breytingum á því hvernig við höfum samskipti við annað fólk. Þessi nýju tæki hafa einnig haft í för með sér breytingar á þjóðfélaginu okkar. Gögnum er safnað um okkur á vefnum og upplýsingarnar notaðar til þess að hafa áhrif á hvað við kjósum og hvað kaupum.
Rætt var við sérfræðinga á sviði tækniþróunar og snjalltækja, heimspekinga og notendur snjalltækja. Þeirra á meðal voru nokkrir nemendur í Réttarholtsskóla sem Kastljós tók tali.
Börnum finnst sumum að símar og samfélagsmiðlar skapi fjarlægð á milli þeirra og foreldra þeirra; Foreldrarnir eru að hlusta en samt ekki. „Mér finnst að foreldrar megi alveg líta í eigin barm líka,“ segir Bryndís Eiríksdóttir, nemandi í áttunda bekk. „Oft segir maður eitthvað við einhverja krakka sem eru í símanum og svo bara er eins og þeir heyri þetta mínútu seinna. Þegar þau hætta að beina athygli sinni á símann þá allt í einu fatta þau þetta.“
„Samskiptin verða oft hæg og ekki góð. Ef maður ætlar að hafa áhugaverð og góð samskipti þá þarf maður oft að leggja símann frá sér.“
Hægt er að horfa á allan þáttinn í spilaranum hér að ofan.