Foreldrar slegnir óhug

21.08.2013 - 20:04
Mynd með færslu
 Mynd:
Foreldrar barna í leikskólanum 101 í Reykjavík eru slegnir óhug eftir að sumarstarfsmaður færði Barnavernd Reykjavíkur myndband sem sýnir harðræði starfsfólks í garð barnanna. Skólanum var lokað í dag á meðan rannsókn málsins stendur yfir.

Grunurinn beinist að tveimur fastráðnum starfsmönnum leikskólans. Báðir hafa þeir starfað þar árum saman en eigandi leikskólans segir að þeir hafi nú verið settir í tímabundið leyfi frá störfum. Heimildir fréttastofu herma að Barnavernd þykir einnig aðfinnsluverðar vinnuaðferðir til að halda reglu á börnunum, þær hafi verið viðhafðar með samþykki eigandans. Sumarstarfsmönnunum blöskraði hvernig komið var fram við börnin og annar þeirra tók myndskeið úr síma og færði Barnaverndarnefnd í gærmorgun. Grunur er um að börnin hafi verið rassskellt, gripið harkalega í þau, mat haldið frá þeim í refsingarskyni og þau lokuð af. Barnaverndanefnd hringdi í foreldra í gærkvöld og eigandi skólans ákvað að loka honum í dag á meðan rannsókn stæði yfir. Í yfirlýsingu er ásökunum hafnað. Barnavernd tekur málið hinsvegar alvarlega.

„Við höfum enga ástæðu til að ætla að þarna sé verið að segja ósatt eða ekki, beinar sönnur á það,“ segir Halldóra Gunnarsdóttir framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur. Börnin á leikskólanum eru ómálga, 9 mánaða gömul til eins og hálfs árs.

Stór hópur barna
„Þetta snýr að ansi stórum hópi barna, þetta er ekki bein tilkynning er varðar einstök börn heldur er verið að lýsa aðbúnaði margra barna og það gerir málið gríðarlega stórt,“ segir Halldóra. Flestir foreldrar sem fréttastofan hefur rætt við í dag bera skólanum vel söguna og segjast undrandi á málinu. Nokkrir hafa sagt að talsverðum aga hafi verið haldið uppi, einn sagði að málið hefði ekki komið sér á óvart.

„Heilbrigðiseftirlitið og fulltrúar sveitarfélaga fara tvisvar á ári í eftirlitsferðir á alla leikskóla og til dagmæðra, þessar heimsóknir eru alltaf tilkynntar fyrirfram. Í skýrslum um þennan leikskóla hefur aldrei verið minnst á harðræði gegn börnum,“ segir Halldóra. Í lögum um leikskóla segir að 2/3 hlutar starfsfólks skuli vera faglærður. Á leikskóla 101 eru aðeins skólastjórinn og eigandinn faglærðir, hinir starfsmennirnir 7 eru ófaglærðir.