Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Foreldrar langveikra barna fá desemberuppbót

29.12.2017 - 06:36
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Félags- og jafnréttismálaráðherra, Ásmundur Einar Daðason, hefur undirritað reglugerð sem kveður á um að foreldrar barna sem eru langveik eða alvarlega fötluð fái greidda desemberuppbót.

Uppbótin verður að hámarki 53.123 krónur. Í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins segir þetta sé nýmæli og að uppbótin sé sambærileg þeirri sem greidd er lífeyrisþegum og atvinnuleitendum.

Samkvæmt reglugerðinni á foreldri langveiks eða alvarlega fatlaðs barns sem hlotið hefur greiðslur í desember 2017 samkvæmt lögum þar að lútandi rétt á desemberuppbót. Foreldri sem hefur fengið greiðslur skemur en tólf mánuði á þessu ári á rétt á hlutfallslegri desemberuppbót í samræmi við þann tíma sem foreldrið hefur fengið greiðslur á árinu. Tryggingastofnun ríkisins annast greiðslu desemberuppbótar samkvæmt reglugerðinni og verður hún greidd út eigi síðar en 18. janúar næstkomandi.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir