Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Foreldrar bestu fyrirmyndirnar í bókalestri

Mynd:  / 

Foreldrar bestu fyrirmyndirnar í bókalestri

04.01.2019 - 10:42

Höfundar

Ævar Þór Benediktsson heldur nú af stað með lestrarátak barna í fimmta og síðasta sinn. Nú er bryddað upp á þeirri nýjung að foreldrar geta verið með. Átakið stendur frá 1. janúar til 1. mars.

„Upphaflega ætlaði ég að gera þetta bara einu sinni því mér fannst þetta skemmtileg hugmynd hjá  sjálfum mér að hafa átak og verðlaunin yrðu þau að fimm þátttakendur yrði dregnir út og gerðir að sögupersónum í bók sem ég myndi skrifa,“ segir Ævar Þór Benediktsson í viðtali í Síðdegisútvarpinu. „Svo gekk þetta svo vel að ég að ég ákvað að hafa þetta þrjú, höfum þetta þrennu. Þá gekk það svo vel að ég ákvað að hafa þetta fimmu.“ 

Frá því að lestrarátak Ævars vísindamanns hófst 2014 hafa íslensk börn lesið yfir tvöhundruð og þrjátíu þúsund bækur, segir Ævar. „Því ætla ég að enda þetta nú með látum og núna geta foreldrar verið með í átakinu, því foreldrarnir eru jú mikilvægustu lestrarfyrirmyndirnar. Við getum ekki endalaust spurt hví krakkarnir eru ekki lesa ef við sjálf erum ekki að lesa.“ Foreldrar fá því tækifæri til að verða persónur í næstu bók. „Eins og með lestrarmiðana sem foreldrar þurfa að kvitta á hjá körkkunum þá þurfa nú börnin að kvitta fyrir lestur foreldranna.“

Ævar fékk hugmyndina að átakinu á sínum tíma þegar hann var beðinn um að vera fundarstjóri á ráðstefnu um lestrarhvatningu í menningarhúsinu Gerðubergi. „Þar var það sama sem allir sögðu, hvort sem það var bókaútgefandi, bókasafnsfræðingur eða kennari allir vildu meina að lestraráhugi færi dvínandi.“

Þá var hann sjálfur nýbyrjaður að skrifa sínar eigin bækur og hugsaði með sér hvernig hægt væri að standa fyrir lestrarátaki sem væri jafnvel spennandi fyrir börn sem hefðu engan áhuga á lestri. „Nokkru síðar sá ég frétt um góðgerðaruppboð í Bandaríkjunum. Þar var George R. R. Martin, höfundur Game of Thrones, með sitt framlag í uppboðinu. Hann lofaði því að hæstbjóðandi í uppboðinu yrði myrtur í næstu Game of Thrones bók. Það var slegist um þau verðlaun. Þetta fannst mér æðislegt. Að bjóða upp á karakter á lausu. Þú getur orðið karakter í bók.“

Mynd með færslu
Þorvaldur Gunnarsson hefur teiknað glæsileg veggspjöld fyrir átakið í ár.

Ævar segist vilja hætta áður börnin verða leið á átakinu. „Þetta er ennþá spennandi. Svo er líka bara svo svakalega spennandi þegar hlutir eru gerðir í síðasta skipti. Ég hef líka sagt að ef einhver þarna úti er með hugmynd, þá er það bara að fara af stað og grípa þennan bolta. Ég byrjaði bara með þessa litlu hugmynd og ég veit að það eru fleiri þarna úti með aðrar hugmyndir, einstaklingar eða samtök. Ég er bara spenntur að sjá hvað gerist næst.“