Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Fordómar eru meiri vandamál en fita

23.03.2018 - 16:43
Mynd: RÚV / RÚV
„Þetta eru aðgerðir sem eru markaðssettar fyrir jaðarsettan hóp og byggja á því að færa fólk úr jaðarsettri stöðu sinni. Maður skilur vel að fólk hafi áhuga á þessum aðgerðum og taki þessa áhættu. Fitufordómar eru kerfisbundið misrétti á öllum sviðum samfélagsins. Þetta sýnir okkur í hvaða stöðu þessi hópur er kominn,“ segir Tara Margrét Vilhjálmsdóttir formaður Samtaka um líkamsvirðingu um offituaðgerðir. Talið er að sífellt fleiri sæki slíkar skurðaðgerðir í þeim tilgangi að grennast.

Rætt var við Töru Margréti í Samfélaginu á Rás 1.

Eru offituaðgerðir fyrir heilbrigði eða til að grennast?

Landlæknisembættið hefur vaxandi áhyggjur af gæðum og öryggi skurðaaðgerða við offitu og sjúklingum sem fara í slíkar aðgerðir án undirbúnings og eftirlits. Tvö nýleg dauðsföll eru rakin til offituaðgerða.

Tara Margrét bendir á að töluvert vanti upp á rannsóknir sem sýni fram á langtímaárangur offituaðgerða. Þá fylgi ekki alltaf skýr sýn á hvaða eigi að vinnast með slíkum aðgerðum. Eru þær til að grenna fólk eða gera það heilbrigðara?

„Ef þetta samfélag væri ekki fitufordómafullt og fókusinn væri á eitthvað annað en þyngdina væri miklu meiri grundvöllur til að meta kosti og galla. Ef við skoðum rannsóknir um hjáveituaðgerðir sem voru gerðar á Landspítalanum á löngu tímabili er sláandi að sjá að um 40 prósent þeirra sem fóru í aðgerðina höfðu enga fylgikvilla offitu. Það er að segja að þeir voru ekki neinir sjúklingar, voru heilbrigðir ef litið er út frá þessum fylgikvillum. Þannig að afhverju voru þeir að fara í aðgerð? Var þetta forvarnaraðgerð eða eru læknarnir kannski að horfa til betri lífsgæða þannig að ef að fólk grennist sé það ekki jaðarsett lengur. Það er að ég held stór partur af myndinni,“ segir Tara.

Of mikill fókus á þyngd

Tara Margrét segir holdafar bæði sjúkdómsvætt og hafa áhrif á félagslega á stöðu. „Við viljum breyta þessum nálgunum, að það sé ekki jafn mikil fókus á þyngdarmiðaðar nálganir að heilsubætingu. Í raun og veru er meiri gagnrýndur grundvöllur fyrir þyngdarhlutlausum nálgunum, þar sem við erum að fókusa á svefn, hreyfingu, mataræði, streitustjórnun og notkun áfengis og tóbaks. Þessir hlutir hafa miklu meiri áhrif en þyngdin ein og sér,“ segir hún.

Tara telur nauðsynlegt að skoða heildarmyndina þegar komi að offituaðgerðum og rýna betur í félagslega þætti offitu. Mikil áhersla sé á ákveðnar líkamsgerðir og merkja megi áróður í fjölmiðlum og samfélagsorðræðu. Þá bendir Tara á að offituaðgerðir séu margra miljarða bransi, þær séu markaðssettar og auglýstar sem lausn fyrir fólk sem finni sig oft í afar þröngri og erfiðri stöðu og upplifi mikla fordóma. Þá sé margt tvíbent í málum sem þessum því aðgerðir losi fólk ekkert endilega undan fordómum. „Það eru eins og það séu aukalegir fordómar gagnvart feitu fólki sem fer í þessar aðgerðir,“ segir Tara.

Hlusta má á viðtalið í spilaranum hér að ofan.

thorhildurg's picture
Þórhildur Guðrún Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður