Fordæma ákvörðun umhverfisráðherra

Mynd með færslu
 Mynd:
Náttúruverndasamtök Íslands fordæma þá ákvörðun Sigurðar Inga Jóhannssonar, umhverfisráðherra, að breyta friðlýsingarskilmálum Þjórsárvera þannig að hægt verði að ráðast í gerð nýrrar útfærslu af Norðlingaölduveitu. Mörk friðlandsins verða dregin í kringum hugsanlegt lónsstæði.

Í yfirlýsingu sem Náttúruverndasamtök Íslands sendu frá sér í dag segir að með þessari ákvörðun sé „enn á ný opnað fyrir að víðerni svæðisins vestan Þjórsár verði spillt, að hinir stórkostlegu fossar, Kjálkaversfoss, Dynkur og Gljúfurleitarfoss neðar í Þjórsá, verði eyðilagðir,“ segir í yfirlýsingu Náttúruverndasamtakanna.

Þar segir jafnframt að ráðherra hafi með þessari ákvörðun sinni rammaáætlun að engu. „og gefur auga leið að ef sitjandi umhverfis-og auðlindaráðherra kemst upp með geðþóttaákvarðanir þvert á gildandi lög og samþykktir Alþingis mun Landsvirkjun - hér eftir sem hingað til - engar sættir virða.“

Oddviti Skeiða - og Gnúpverjahrepps sagði í samtali við fréttastofu í dag að umhverfisráðherra fari að hlutunum í vitlausri röð - Alþingi þurfi fyrst að ákveða nákvæmlega hvað skuli friða og hvað ekki.

Þrenn náttúruverndarsamtök sendu umhverfisráðherra bréf í dag þar sem þau mótmæla ákvörðun hans og segjast mögulega leita til dómstóla til að fá henni hnekkt. 

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi