Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Fordæðuskapur og fláræði Manchester City

Manchester City er ríkjandi Englandsmeistari - Mynd: Manchester City / RÚV

Fordæðuskapur og fláræði Manchester City

14.11.2018 - 14:20
Manchester City hefur sýnt ótrúlega hugmyndaaugði til að komast fram hjá reglum evrópska knattspyrnusambandsins um fjárhagslega háttvísi. Útgjöld verða að tekjum, styrkir hækka og lækka að vild, dagsetningum samninga er breytt og peningarnir koma iðulega frá olíufurstanum í Abu Dhabi með einum eða öðrum hætti, þótt þeir komi stundum við í nokkrum vösum á leiðinni til að fela slóðina.

Evrópska knattspyrnusambandið innleiddi reglur árið 2011 um fjárhagslega háttvísi til að koma í veg fyrir að lið fjármagni sig með lánum og endi í gjaldþroti. Eigendur mega ekki dæla peningum til liðsins til að skekkja samkeppnisstöðu þeirra. Lið mega einfaldlega ekki eyða umfram tekjur. Lið sem brjóta þessar reglur eiga yfir höfði sér sektir, eða að vera vísað úr keppni í Evrópu, þar með talið hinni verðmætu Meistaradeild. Það verður enginn afsláttur veittur ef lið brjóta þessar reglur, sagði Michel Platini, forseti knattspyrnusambands Evrópu. Tölvupóstar sem Der Spiegel hefur birt sýna örvæntingu innan Manchester City. Liðið gat engan veginn staðist þessar kröfur, löglega. Þá voru góð ráð rándýr og enginn skortur á hugmyndaauðgi.

Snekkjan fimmfalt dýrari en Manchester City

Samkvæmt gögnum Der Spiegel hófst fláræði Manchester City um leið og sjeikinn af Abu Dhabi keypti félagið 2008. Uppleggið var alla tíð að dæla peningum í liðið og gera það að ríkasta og umfram allt besta knattspyrnuliði heims. Eigandinn vissulega einn auðugasti maður heims. Einkasnekkjan er með tvo þyrlupalla frekar en einn og kostar litlar 500 milljónir evra eða 70 milljarða króna. Fimmfalt kaupverð Manchester City. Hann ekur um á einum dýrasta og hraðskreiðasta bíl veraldar, Bugatti Veyron. Hann á reyndar fimm slíka. Manchester City varð enskur meistari 2012, tæpum fjórum árum eftir kaup furstans en innanhússkjöl sýna að þá hafði hann dælt ellefu hundruð og ellefu milljónum punda í liðið eða hátt í tvö hundruð milljörðum íslenskra króna. 

Hernaðaráætlun Breta gegn Frakka

Nýjar reglur um fjárhagslega háttvísi sem tóku gildi 2013 breyttu stöðunni og tölvupóstar gengu manna á milli. Að óbreyttu væri útilokað að liðið stæðist þessar reglur og ætti því jafnvel á hættu að vera vísað úr Meistaradeildinni. Forráðamenn liðsins reyndu eins og þeir gátu að koma í veg fyrir að reglurnar yrðu settar, gerðu það reyndar bak við tjöldin svo liðið fengi ekki á sig stimpilinn óvinur fótboltans, eins og þeir orða það sjálfir. En það var ekki bara brugðist við, það var sett saman hernaðaráætlun. Áætlun sem fékk nafnið Langbogi en það er vopnið sem Bretar notuðu með góðum árangri í hernaðarsigrum á Frökkum við Crecy og Agincourt. Breska liðið Manchester City ætlaði að sigra frakkann Michel Platini, forseta evrópska knattspyrnusambandsins sem er guðfaðir reglnanna um fjárhagslega háttvísi. Peningum var dælt bakdyramegin inn í félagið til að auka tekjurnar og kostnaður jafnframt færður frá félaginu til að draga úr kostnaði. 

Borga stórfé fyrir að fá að borga stórfé!

Hugmyndaauðgin nær ákveðnu hámarki í tengslum við ímyndarrétt leikmanna. Venjulega þurfa lið að borga fúlgur fjár fyrir að nota leikmenn í markaðssetningu. Manchester City fór nýja leið og losaði sig undan þessum kostnaði með því að selja þennan rekstrarþátt. Kaupandinn borgar útgjöldin og borgar Manchester City að auki árlega 30 milljónir punda eða nærri fimm milljarða króna. Þannig urðu umtalsverð útgjöld skyndilega að verulegum tekjum í bókum félagsins. Í tölvupóstum tala stjórnendur Manchester City fjálglega um þessa snilld sem sé afar mikilvæg í hernaðaráætluninni Langboga sem beint var gegn reglum um fjárhagslega háttvísi. Þeir sem hönnuðu þessa snilldarfléttu voru feðgarnir Jonathan og David Rowland. Pabbinn hafði verið mikið í fréttum vegna margra milljóna punda framlaga hans til Íhaldsflokksins. Hann var í kjölfarið tilnefndur fjárhirðir Íhaldsflokksins en hætt var við þann gjörning þegar í ljós kom að hann hafði varla greitt nokkra skatta í landinu í áratugi. Fléttunni stýrðu feðgarnir úr rústum Kaupþingsbanka í Lúxemborg. Fyrirtækið sem borgaði stórfé fyrir að fá að borga stórfé fyrir Manchester City var vel falið í langri runu félaga í skattaskjólum. Afhjúpanir Der Spiegel á innanbúðarskjölum liðsins sýna að félagið Fordham sem keypti ímyndarrétt leikmanna var í raun í eigu móðurfélags Manchester City. Félagið var stofnað til að dæla fé til liðsins og losa það undan kostnaði án þess að virðast brjóta reglur. Þetta er hreinn og klár skrípaleikur eins og lýst er í Der Spiegel. Framkvæmdastjóri hjá fótboltafélagi stýrir jafnframt útgjöldum móðurfélags Manchester City, peningum sem ferðast vítt og breytt um heiminn þangað til þeir enda í fjárhirslum Manchester City. Yfirmaður hans og einn nánasti samstarfsmaður furstans frá Abu Dhabi blessar þessa gjörninga alla. 

Hótuðu öllu illu og sluppu með skrekkinn

Þegar reglurnar um fjárhagslega háttvísi tóku gildi kom í ljós að Manchester City stóðst þær engan veginn. Forráðamenn liðsins brugðust ókvæða við, hótuðu að senda her bestu lögfræðinga út á vígvöllinn og drekkja Evrópska knattspyrnusambandinu í málsóknum um langa framtíð. Á endanum var samið um lausn við Gianni Infantino framkvæmdastjóra hjá evrópska knattspynusambandinu. Þeir sluppu með sekt upp á 49 milljónir punda og fengu reyndar bróðurpartinn endurgreiddan nokkru síðar vegna góðrar hegðunar. Infantino er nú forseti Alþjóðaknattspyrnusambandsins.

Gerðu sjálfum sér tilboð sem þeir gátu ekki hafnað

Á þessum tíma vissu menn ekki hversu víðtæk brot Manchester City voru, viðskiptafléttan með kaup Fordham á ímyndarrétti leikmanna var til að mynda ekki þekkt. Ári síðar fóru þeir að skoða þessi sérkennilegu viðskipti og sáu vitanlega að þau voru einstaklega hagstæði fyrir Manchester City. Sáu raunar ekki hvernig Fordam ætlaði sér að hagnast á þeim. Manchester City sagði það ekki sitt mál, þeir hefðu ekki séð viðskiptaáætlun Fordham en niðurstaðan væri vissulega hagstæð. Þeir hefðu bara tekið góðu tilboði. Þeir létu ekki fylgja sögunni að sjálfir hefðu þeir í raun gert þetta tilboð. Uppljóstranir Der Spiegel setja málið í alveg nýtt ljós.

 

Tengdar fréttir

Fótbolti

Svikamyllan Manchester City

Fótbolti

Cristiano Ronaldo í vondum málum

Fótbolti

Arabaguðinn Mohamed Salah

Íþróttir

Skuggahliðar Lionels Messi