Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Foráttuvöxtur í ám við Skaftá

05.10.2015 - 08:06
Mynd með færslu
Sveinn K. Rúnarsson yfirlögregluþjónn lokar brúnni yfir Eldvatn. Allar leiðir eru annars færar Mynd: Ingibjörg Eiríksdóttir - RÚV
Ár á Suðausturlandi eru í foráttuvexti. Svo mikið er í Hverfisfljóti að vatnsmælir þar er hættur að taka við. Methæð er á vatni við brúna yfir Skálm. Sveinn K. Rúnarsson yfirlögregluþjónn, sem er á Skaftárhlaups-vaktinni á Kirkjubæjarklaustri segir allar leiðir þó færar.

„Skaftáin er svo sum bara eins og hún var í gær í sjálfu sér og Eldvatnið, það hefur lítið breyst þar. En við sjáum gríðarlega aukningu í rennsli bæði í Skálminni og svo í Hverfisfljóti og eins í Fossálnum og öllum ám þarna á svæðinu í sjálfu sér. Það varð alveg gríðarlega úrkoma í gær, og stóð í nótt og stendur enn og það hefur verið alveg gríðarlega mikil vatnsaukning í öllum ám. Heldurðu að vatnið í Hverfisfljóti megi á einhvern hátt rekja til hlaupsins? Nei, mér skilst ekki. Það var nú lögreglumaður frá mér sem skoðaði þetta núna í morgunsárið. Hann segir að vatnið sér tært eða þannig að þetta sé ekki burður úr jöklinum. Þannig að þetta er væntanlega bara rigningarvatn. Vatn var farið að lóna svona upp að vegum, en það er alveg fært allar leiðir þarna? Já, það er allt fært ennþá, það eru engu búið að loka.“

Vatnshæð við Hverfisflót á mælum Veðurstofunnar var orðin 5,1 metri áður en hún fór út fyrir mælisvið þ.e.a.s. flæddi fram hjá mælum. Rennsli í Skaftá við Sveinstind og Kirkjubæjarklaustur fer nú minnkandi. 

Veðurstofan spáir mikilli úrkomu á Suðausturlandi fram á nótt.