Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

For upp um alla veggi og skítugar kýr

08.12.2012 - 16:20
Mynd með færslu
 Mynd:
Matvælastofnun hefur afturkallað starfsleyfi tveggja kúabúa vegna brota á reglum um hollustuhætti við framleiðslu mjólkur og sláturgripa. Þetta eru Ingunnarstaðir í Reykhólahreppi og Brúarreykir í Borgarfirði.

Í bréfi Matvælastofnunar til Brúarreykja sem sent var 30. nóvember kemur fram að þrátt fyrir ítrekaðar kröfur um úrbætur hafi verið brugðist seint, illa eða alls ekki við. Því er býlinu óheimilt að afhenda mjólk eða sláturgripi frá og með 1. desember. 

Drulluskítugir nautgripir

Fundið var að hreinlæti við handþvottaaðstöðu, mjaltaþjónn var skítugur, for var um allt fjós og jafnvel þótt mokað hefði verið út var for upp um alla veggi og gripir drulluskítugir. Þá var þrifum á mjólkurtanki mjög ábótavant. Að auki voru um 90 gripir í fjósinu en það er aðeins fyrir 64. Þetta leiði til þess að skítur safnist hratt upp og fjósið verður ein allsherjar for á einum degi, eins og segir í bréfinu. Gripir leggist í forina með tilheyrandi áhættu fyrir matvælaöryggi.

Óþrifnaður á Ingunnarstöðum

Gerðar hafa verið margítrekaðar athugasemdir um hollustuhætti á Ingunnarstöðum - og ekki hefur verið brugðist við þeim með fullnægjandi hætti. Til að mynda var mjaltabúnaður skítugur, gólfið í mjólkurhúsi illa þrifið, handþvottaaðstaða mjög skítug auk þess sem þar var engin sápa. Í bréfi Matvælastofnunar til Ingunnarstaða frá níunda nóvember segir að aðeins hafi verið brugðist við kröfum um úrbætur á flórþrifum og sýnatöku í vatni. Þá er þess getið að niðurstöður Heilbrigðiseftirlitsins hafi sýnt saurgerla í vatninu. Afhending mjólkur frá búinu var bönnuð frá og með tólfta nóvember.

Ákvörðun Matvælastofnunar í máli Ingunnarstaða, hefur verið kærð til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Kærufrestur Brúarreykja rennur út eftir tæpa þrjá mánuði.


Brúarreykir. Mynd: MAST


Brúarreykir. Mynd: MAST.

Brúarreykir. Mynd: MAST


Ingunnarstaðir: Mynd: MAST


Ingunnarstaðir. Mynd: MAST