Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Fór um 7000 kílómetra utan varptímans

24.02.2016 - 14:40
Mynd með færslu
 Mynd: Náttúrustofa Norðausturlands
Stuttnefja, sem merkt var með dægurrita hjá Náttúrustofu Norðausturlands, ferðaðist gríðarlanga leið frá því hún yfirgaf hreiður sitt að loknu varpi í Látrabjargi, þar til hún kom þangað aftur í lok vetrar árið eftir.

Hún var merkt í Látrabjargi í júní 2013. Að varpi loknu, í lok júlí, fór hún rakleiðis suður með landgrunnsbrún Austur-Grænlands, suður og vestur fyrir Horn og dvaldist svo vestan við Grænland frá júlí og fram í nóvember. Á því tímabili felldi hún flugfjaðrir og gat því ekki flogið um nokkurra vikna skeið.

Ferðalög stuttnefju utan varptímans, veturinn 2013-2014. 

Í nóvember tók hún sig svo til og fór suður með landgrunnsbrún Kanada yfir á hafsvæði djúpt suðvestur af Hvarfi. Þar dvaldi hún fram í janúar en þá hóf hún ferðalagið heim aftur eftir vesturkanti Reykjaneshryggsins. Heim var hún svo aftur komin í fyrrihluta febrúar.

Dægurriti festur á svartfugl. Hefðbundið stálmerki er á hinum fætinum.

Þorkell Lindberg Þórarinsson, forstöðumaður NNA, segir að gróft áætlað gæti ferðalag þessarar stuttnefju hafa numið um 7000 kílómetrum, ef meginferill hennar á ferðalaginu er skoðaður. Það sé þó ekki nákvæm vegalengd.

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV