Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Fór með þingmenn í hugarferð á Vatnajökul

08.09.2015 - 20:29
Mynd: rúv / rúv
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, hóf ræðu sína á Alþingi, í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra, með óvenjulegum hætti. Bað hann viðstadda að loka augunum og fylgja sér í huganum upp á Vatnajökul.

Í huga þeirra væru víðerni Vatnajökuls full af fólki. Þá bað hann viðstadda að ímynda sér að þeir væru komnir til London, Kína eða Indlands. Þar væri engan að finna. „Og þegar við opnum augun, ætlum við þá að reyna að halda því fram, í fullri alvöru, að heimurinn se svo stór að við getum ekki haft áhrif á hann til breytinga og mannfjöldinn svo mikill að við skiljum ekki hver hann er? Nei. Það er ekki þannig. Er það ekki kannski frekar að við sannfærumst um að sú tilfinning okkar að við getum leyst vandann sé rétt en að það sem haldi aftur að okkur séu mótbárur og afsakanir ríkjandi valdakerfa?“ sagði Árni Páll. 

Árni Páll sagði vilja og frumkvæði íslensku þjóðarinnar mikilvægt og lýsti ánægju með það, hvernig fólk hafi látið til sín taka og boðið fram aðstoð við flóttamenn að undanförnu. Hann sagði Íslendinga tengjast flóttafólki sterkum böndum, enda þekktu þeir vel það hlutskipti að vera flóttamenn. Íslendingar tengi vel við drauminn um betra líf.

 

 

Hólmfríður Helga Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV