Fór langt á frönskum og kótilettum

Mynd með færslu
 Mynd:

Fór langt á frönskum og kótilettum

08.07.2013 - 20:31
„Maður er svolítið sár undir iljunum og fékk eina smávegis blöðru, ég prísa mig sælan með það,“ segir Gunnlaugur A. Júlíusson sem hljóp tífalt maraþon í London um helgina. Gunnlaugur hljóp samtals í um 70 klukkustundir og var fjórði í mark af þeim 14 þátttakendum sem kláru.

Alls vou 37 hlauparar skráðir til leiks og því heltust 23 hlauparar úr lestinni á þeim 100 klukkustundum sem hlaupurum voru gefnar til að fara vegalengdina.   

Gunnlaugur segist vera í góðu standi eftir þessi miklu átök. „Ég er bara fínn eftir hlaupið og er sáttur við árangurinn. Ég var líka fínn seinni hluta þess þegar uppskeran af almennilegri næringu var farin að skila sér, sem sást til dæmis á því að hröðustu leggirnir hjá mér í hlaupinu voru þeir tveir síðustu,“ segir hann. 

Hann fór óvenjulega leið í næringu fyrir og á meðan hlaupinu stóð. Margir kjósa að nærast helst á fljótandi fæði, orkuhlaupi og hitaeiningaríku hollustufæði en Gunnlaugur torgaði þess í stað kótilettum og hamborgurum sem hann skolaði niður með bjór. „Þetta er ekkert grín hjá mér með bjór og almennilegt kjöt. Ég held að ástæðan fyrir því hversu mikið brottfall er úr þessu hlaupi sé sú að þátttakendur nærist ekki  nógu vel,“ segir hann. 

„Það var mjög heitt, rúmlega 25 stiga hiti á daginn og heiðskýrt. Þannig á sér stað rosalegt vökvatap alla 24 tíma sólarhringsins á meðan á svona hlaupi stendur. Vandinn er sá að maður getur bara innbyrt takmarkað magn af vatni, ef maður drekkur of mikið magn af vatni í einu fer allt í uppnám, maginn neitar að taka við meira og hlauparar fara að kasta upp. Bjórinn virkar allt öðruvísi, maður getur mætt þessu mikla vökvatapi með öðrum vökva í gegnum bjórinn þannig að líkaminn fái það sem hann þarf á að halda,“ segir Gunnlaugur. 

Enskur morgunmatur í miðju hlaupi

Aðspurður segist hann ekki hafa orðið kenndur af bjórdrykkjunni. „Alkóhólið rýkur út í veður og vind, þetta er það öfgafullar aðstæður, hiti og átök að maður nær ekkert að finna á sér, “ segir Gunnlaugur.

Hann var ekki sáttur við þá næringu sem aðstandendur hlaupsins buðu upp á. „Í fyrra hljóp ég hlaup frá Birmingham til London. Þá fengum enskan morgunverð þegar við hlupum út úr nóttinni, beikon, egg, pylsur og bakaðar baunir. Það var rosalega gott að fá svo staðgóða máltíð. Í þessu hlaupi var okkur hins vegar boðið upp á bollasúpu. Ég varð alveg æfur yfir því uppátæki, en það vildi til happs að í grenndinni var stórmarkaður þar sem ég gat keypt mér að borða,“ segir Gunnlaugur. 

Eftir það verslaði Gunnlaugur alla sína næringu í hlaupinu sjálfur, fór í kjörbúðir og á veitingahús. „Ég fékk mér svínasteik og franskar kartöflur, og mikið af því. Einhverju sinni borðaði ég upp úr hálfum kassa af jarðaberjum og gúffaði í mig gríska jógúrt þegar ég náði í hana í búð. Ég borðaði bara eins staðgóðan og nánast tormeltan mat og ég gat, það er það sem dugar,“ segir Gunnlaugur. Hann segist hafa þurft að hugsa hlaupið alveg upp á nýtt þegar ljóst varð að hann gæti ekki stólað á þá næringu sem skipuleggjendur hlaupsins sáu þátttakendum fyrir. 

Komu í mark sólarhring síðar

Hann hélt nokkuð jöfnum hraða alla 70 klukkutímana. „Ég gæti þess að byrja ekki of geyst því það getur komið aftan að manni síðar í hlaupinu. Til að mynda voru hlauparar samferða mér inn í 6. maraþonið sem síðan drógust aftur úr og komu í mark sólarhring á eftir mér. Þeir missa þá dampinn og neyðast til að ganga tugi ef ekki hundrað kílómetra. Það er ekki skemmtilegt,“ segir Gunnlaugur. „Maður verður að finna sinn takt og hlaupa sitt eigið hlaup, aldrei að láta aðra þátttakendur æsa sig upp,“ segir hann. „Það er úthaldið sem skiptir máli í þessu sambandi, ekki spretturinn í upphafi,“ segir hann. 

En hvað skyldi fara í gegnum hugann á þeim 70 klukkustundum sem það tekur að ljúka tíföldu maraþoni? „Maður er bara að hugsa um hlaupið og njóta umhverfisins. Það var víða ofboðslega fallegt, við hlupum meðfram Thames, í gegnum Redding og Eaton, þar sem maður fylgdist með róðraköppum. Svo fórum við framhjá Windsorkastala og maður er í fallegu sveitalandslagi og bæjum svo að alltaf er nóg sem ber fyrir augu,“ segir Gunnlaugur. 

Hann hljóp á næturnar ólíkt mörgum öðrum þátttakendum sem nýttu þær að hluta í hvíldir. „Þegar rökkvaði lenti maður í ýmsu, Eina nóttina þegar það var kolniðamyrkur fannst mér eins og vinstra megin við mig væri gríðarstórt vatn og í því sýndust mér vera flóðhestar.Þegar betur var að gáð kom í ljós að þetta var bara engi þar sem dalalæðan var komin yfir. Kýrnar á enginu voru í þoku upp á miðja síðu og líktust þannig flóðhestum í myrkri og fjarlægð,“ segir Gunnlaugur og hlær. 

„Annars er maður bara að velta fyrir sér hvernig manni miðar og reikna út það sem eftir er af hlaupinu. Það er nóg að hugsa um,“ segir Gunnlaugur. Hann hlustar ekki á tónlist við hlaup.

Ekki gefast upp í brekkum

Þátttakendur í hlaupinu voru í langflestum tilfellum mikið afreksfólk í hlaupum, hvaðanæva að úr heiminum. „Ég verð að vera sáttur við minn hlut því það eru engir amatörar sem taka þátt í þessu hlaupi. Einn þátttakandinn, Norðmaður, fór í öll ofurmaraþon sem fyrirfinnast í Noregi í fyrra. Honum tókst hins vegar því miður ekki að komast í mark í þetta skiptið, svo voru líka langhlauparar frá Svíþjóð sem heltust úr lestinni,“ segir Gunnlaugur. 

Hann segir andlegt þrek skipta máli í hlaupi sem þessu. „Það skiptir máli. Maður má ekki gefast upp þó það komi brekkur,“ segir Gunnlaugur. 

Aðspurður hvaða önnur atriði vegi þungt segir hann allra mikilvægast að hlúa að fótunum. „Það er tvennt sem mér finnst skipta meginmáli í því samhengi, að vera í stórum skóm og eins að hafa þá eins laust reimaða og hægt er. Ef fæturnir fara að nuddast út í skóna koma blöðrur um leið,“ segir hann. 

Gunnlaugur segir aldur líka hafa sitt að segja, langhlaup henti gjarnan eldri hlaupurum frekar en þeim sem yngri eru. „Ungt fólk hefur snerpuna. Þegar menn eldast minnkar snerpan en í staðinn byggist upp seigla, úthald og reynsla. Þetta er eðlilegur gangur lífsins,“ segir Gunnlaugur.

Inntur eftir því hvernig hann hvíli sig eftir svo mikil átök segir Gunnlaugur þá uppskrift ekki flókna. „Maður sefur eina nótt og svo er það bara business as usual,“ segir hann. Engin hlaup eru þó á dagskrá hjá honum næstu tvær vikurnar, hann hvílir sig algerlega á hlaupum í þann tíma. 

Hann tekur ekki fyrir þátttöku í sambærilegu hlaupi í framtíðinni. „Það er aldrei að vita, maður lærir á þessu og þetta verður auðveldara þegar maður veit að hverju maður gengur,“ segir hann. 

Gunnlaugur segist ekki vera búinn að ákveða hvaða keppnishlaup hann takist næst á við. „Þetta er auðvitað engin atvinnumennska, ég sinni þessu bara sem skemmtilegu áhugamáli,“ segir Gunnlaugur. 

Gunnlaugur ásamt syni sínum, Sveini, að hlaupi loknu.

[email protected]