Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Fór í sjóinn við Kirkjufjöru við Dyrhólaey

09.01.2017 - 13:12
Mynd með færslu
Víkurfjara við Dyrhólaey Mynd: Lögreglan á Suðurlandi
Leit stendur nú yfir að konu á fimmtugsaldri sem fór í sjóinn við Kirkjufjöru hjá Dyrhólaey um klukkan 13 í dag. Allt tiltækt lið lögreglu, sjúkraliðs og björgunarsveita hefur verið kallað út. Kjartan Þorkelsson, lögreglustjóri á Suðurlandi, staðfesti þetta í samtali við fréttastofu. Upplýsingafulltrúi Landsbjargar segir að Neyðarlínunni hafi borist nokkur símtöl þar sem tilkynnt var um mann í sjónum. Hann segir þetta konu á fimmtugsaldri.

Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn, segir í samtali við fréttastofu að konan sé erlendur ferðamaður og að hún sé ófundin. „Ég hef ekki alveg nógu greinargóðar upplýsingar um hvað gerðist þarna og upphaflega kom tilkynningin um að þetta væri í Reynisfjöru.“  Síðar kom í ljós að þetta væri í Kirkjufjöru sem er við Dyrhólaey.

 

Mikil alda er í fjörunni og erfitt um vik fyrir björgunarsveitafólk. Fram kemur í tilkynningu frá slysavarnarfélaginu Landsbjörg björgunarsveitir hafi verið kallaðar út laust eftir klukkan 13.00 í dag vegna manns sem farið hafði í sjóinn.

 

Björgunarsveitafólk er þegar komið á staðinn. Þór, björgunarskip Slysavarnafélagsins Landsbjargar í Vestmannaeyjum, er á leið að Kirkjufjöru og þyrla Landhelgisgæslunnar er á leið á staðinn.

Þorsteinn Gunnarsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir í samtali að Neyðarlínunni hafi borist fimm símtöl þar sem tilkynnt var um mann í sjónum. „Það voru svo margar tilkynningar að þetta er tekið alvarlega. Við ætlum að leita af okkur allan grun.“

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ferðamenn lenda í sjónum á þessum stað. Fyrir tæpum tveimur árum fóru þrír ferðamenn í sjóinn á þessum stað og þá þótt það mikil mildi að tekist hefði að ná fólkinu í land. Fyrir tæpum áratug lést bandarísk kona eftir að alda hreif hana með sér í fjörunni. 

Þá lést ferðamaður í febrúar á síðasta ári eftir að hafa misst fótanna í flæðarmálinu í Reynisfjöru.